Félagsleg aðstoð

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 15:55:10 (6271)

2001-04-03 15:55:10# 126. lþ. 104.25 fundur 275. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[15:55]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð. Ég vil taka undir þetta frv. Ræðutíminn er afar stuttur og því miður er ekki tími til þess að ræða málið eins og þyrfti.

Á síðustu árum hefur heilmikið verið gert, fjárframlög á fjárlögum Alþingis hafa verið aukin til baráttunnar við fíkniefnavandann og eins til meðferðarúrræða. En ég tek heils hugar undir að það þarf að styðja fjölskylduna. Þarna er um sjúkdóm að ræða og ég tel þetta algjörlega sambærilegt við langveik börn. Það er óhugnanlegt hve við töpum mörgum ungmennum á hverju einasta ári í klær fíkniefna og sjálfsvíga. Hver einstaklingur er okkur svo einstaklega mikilvægur. Við erum fámenn þjóð og því er einstaklingurinn okkar kannski miklu meira virði en annars staðar í heiminum. Hér er um sjúkdóm að ræða og við eigum að fara með þessi mál eins og þannig sé.

Ég tel líka að við eigum að taka þetta upp í félmn. Alþingis og ræða t.d. í samhengi við félagsþjónustu sveitarfélaga sem nú er þar til umræðu. Þetta kemur svo sannarlega þar að.

Eins og ég sagði áðan tel ég afar brýnt að fjölskyldan fái allan þann stuðning sem hægt er í þessum málum. Því fyrr sem tekið er á vandanum því betur er hægt að ráða við hann.