Herminjasafn á Suðurnesjum

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 15:59:17 (6274)

2001-04-03 15:59:17# 126. lþ. 104.26 fundur 338. mál: #A herminjasafn á Suðurnesjum# þál., Flm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um herminjasafn á Suðurnesjum, sem liggur frammi á þskj. nr. 444 og er flutt ásamt mér af þeim hv. þingmönnum Hjálmari Árnasyni, Árna Johnsen og Drífu Hjartardóttur.

Tillagan er þessa efnis, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að eiga samstarf við sveitarfélögin á Suðurnesjum um undirbúning að stofnun og starfrækslu herminjasafns.``

Um tillöguna er það að segja, herra forseti, að víða um land er verið að auka samstarf menningarstarfsemi og ferðaþjónustu undir yfirskriftinni Menningartengd ferðaþjónusta. Víða um land eru minjar af ýmsu tagi en Suðurnes hafa þá sérstöðu að þar hefur starfað varnarlið. Varnarstöð hefur verið þar nú um 50 ára skeið eða svo, raunar lengur ef litið er allt til fyrsta samnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1941. Það er einstætt á Íslandi, herra forseti, að erlent varnarlið hafi verið hér staðsett svo lengi og hefur það skilið eftir sig nokkrar minjar. En þessu efni tengist líka fjölþætt umræðuefni Íslendinga um áratugi, deilur og ágreiningur sem er verðugt að minnast með þeim hætti að gestir og gangandi geti kynnt sér málefnið, þá atburði sem orðið hafa og þau atvik sem lengst eru í minnum höfð.

Herra forseti. Þetta er aðeins þáttur í því að sveitarfélögin á Suðurnesjum eru að auka samstarf sitt við ferðaþjónustufyrirtæki þar á svæðinu og að efna til minjasafna af ýmsu tagi. Þau hafa kynnt sér sérstaklega hvaða efni er nauðsyn að taka fram og sýna og þetta er aðeins eitt af þeim. Það sérkenni er í þessu efni að takast þarf samstarf með utanrrn. og sveitarfélögunum til þess að vel geti tekist, einkanlega þar sem mikið af þessu efni er í eigu erlenda aðilans, samstarfsaðila íslenska ríkisins, um varnir landsins.

Herra forseti. Þess hefur gætt að þeir sem standa að stríðsminjasafni á Reyðarfirði hafa áhyggjur af því að herminjasafn á Suðurnesjum kynni að hafa áhrif á starfsemi þess. Það er rétt að taka fram vegna þess að það er alls ekki ætlun flutningsmanna né heldur sveitarfélaga á Suðurnesjum að svo fari. Svo vill til að minjar um stríðsreksturinn, heimsstyrjöldina síðari eins og við köllum hana, eru ekki miklar á Suðurnesjum enda er efni þessarar tillögu og þessarar umfjöllunar sveitarfélaganna ekki varðandi stríðsárin heldur þá áratugi sem varnarliðið hefur starfað á Miðnesheiði.

Ég leyfi mér að leggja til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og til athugunar í hv. utanrmn.