Dómstólar

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 16:57:59 (6280)

2001-04-03 16:57:59# 126. lþ. 104.27 fundur 415. mál: #A dómstólar# (skipun hæstaréttardómara) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[16:57]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir ræðuna. En eina athugasemd vil ég gera. Hæstv. ráðherra segir að engin trygging sé fyrir því að alþingismenn hafi þekkingu til að taka afstöðu í lögfræðilegum álitamálum og þar með leggja blessun sína yfir hver skipaður verði hæstaréttardómari.

Ég lít ekki svo á að það sé lögfræðilegt álitamál einvörðungu. Við erum að leggja til, bæði Samfylkingin og einnig kemur það fram í frv. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að tveir þriðju hlutar alþingismanna samþykki tilnefningu ráðherra á hæstaréttardómara til þess að tryggt sé að þröng flokkspólitísk (Forseti hringir.) sjónarmið ráði ekki för. Það er ástæðan fyrir því að við leggjum áherslu á að tveir þriðju hlutar Alþingis samþykki tilnefninguna.