Dómstólar

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 17:06:32 (6285)

2001-04-03 17:06:32# 126. lþ. 104.27 fundur 415. mál: #A dómstólar# (skipun hæstaréttardómara) frv., Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[17:06]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka forseta fyrir að gefa mér örstutt tækifæri til að tjá mig örlítið um þá umræðu sem hér hefur farið fram jafnframt því að þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir að taka átt í umræðunni.

Í ræðu hæstv. dómsmrh. komu fram nokkur atriði sem ég vildi nefna. Með þessari hugmynd er í fyrsta lagi verið að gefa minni hluta þingsins hverju sinni tækifæri til að hafa áhrif á það hverjir skipi sæti í Hæstarétti. Þegar fyrirkomulagið hér er borið saman við Norðurlöndin verðum við vitaskuld að hafa í huga að þar er miklu ríkari hefð fyrir minnihlutastjórnum. Það er engin hefð fyrir því hérna. Því er þess vegna ekki saman að jafna.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, er athyglisvert þegar menn reyna að bera það fyrir sig að Hæstiréttur gefi umsögn. Ég hef séð þessar umsagnir. Þær eru yfirleitt ekki langar eða miklar að vöxtum. Það breytir þó ekki hinu, að sömu hæstaréttardómarar og gefa þessa umsögn eru skipaðir af hæstv. dómsmrh. hverju sinni. Það er einfaldlega þannig. Hér var vitnað til blaðsins Dags, í ræðu eins hv. þm. Þar var einmitt fjallað um þetta og þar kom fram, ef ég man rétt, að sex eða sjö af þeim sem nú sitja Hæstarétt hafi setið í hverfisnefndum eða öðru á vegum Sjálfstfl.

Virðulegi forseti. Það þarf ekki sérstakan sérfræðing í þessum málum til að sjá að það skiptir verulegu máli hverju sinni hver situr í sæti dómsmrh. Það skiptir miklu máli hver skipar dómara og úr hvaða flokki hann kemur. Þannig er bara veruleikinn og þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram eru til þess fallnar að styrkja dómstólana, styrkja trú manna á þeim.

Hvers konar dómstóla viljum við hafa hér? Það er grundvallarspurning sem lagt er upp með. Við viljum hafa sjálfstæða og óháða dómstóla og til þess að þeir geti orðið það þarf að skipa þá þannig að menn hafi á þeim fulla trú. Það þarf að skipa dómstólana þannig að þeir hafi fullan stuðning og sterkan bakgrunn í samfélaginu. Það er eina leiðin til þess að tryggja að Hæstiréttur sé skipaður eins og nauðsynlegt er og það er eina leiðin til að tryggja að menn telji sig geta borið mál undir Hæstarétt á þeim forsendum að málin fái þar hlutlæga og góða meðferð.