Rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 17:09:55 (6286)

2001-04-03 17:09:55# 126. lþ. 104.28 fundur 432. mál: #A rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði# þál., Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[17:09]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 695 um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði.

Áður en ég hef mál mitt, virðulegi forseti, vil ég taka fram að ég mun freista þess að halda samkomulag sem gert hefur verið um að takmarka ræðutíma þannig að fleiri mál komist að í þinginu í dag. Ég mun því fara yfir tillöguna í örstuttu máli. Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta Byggðastofnun gera tilraun um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu.

Verkefnið verði tilraunaverkefni til fimm ára og stutt með framlögum úr ríkissjóði.``

Þessi þáltill. var flutt á 123. og 125. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Hún er nú endurflutt hér um bil óbreytt.

Á undanförnum missirum hafa verið mótaðar hugmyndir um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði. Áætlað er að ekið verði á tveggja tíma fresti, frá kl. 7.00 árdegis til kl. 24.00 á miðnætti, á þremur leiðum:

1. Akureyri -- Hjalteyri -- Hauganes -- Árskógssandur -- Dalvík -- Ólafsfjörður.

2. Akureyri -- Kristnes -- Hrafnagil -- Laugaland.

3. Akureyri -- Svalbarðseyri -- Laufás -- Grenivík.

Lagt er til í þessari þáltill. að verkefnið verði til reynslu í fimm ár.

Helstu röksemdir fyrir tilrauninni eru:

Byggð á svæðinu styrkist með greiðari samgöngum fyrir alla íbúa.

Ungmenni sem sækja framhaldsskóla á Akureyri geta fremur búið heima.

Hagræðing verður í skólaakstri og þjónustu við stofnanir, svo sem Kristnesspítala.

Ferðamenn eiga auðveldara með að ferðast um svæðið á eigin vegum.

Aðgerðin er orkusparandi.

Að beiðni Ferðamálamiðstöðvar Eyjafjarðar, sem nú er hluti af Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar hefur fyrirtækið Rekstur og ráðgjöf á Norðurlandi unnið skýrslu um fjárhagslegar forsendur verkefnisins. Þar kemur fram að árlegur rekstrarkostnaður slíks almenningssamgöngukerfis yrði um 34--37 millj. kr. Erfiðara er að áætla tekjurnar en talið er að þær gætu numið frá 20--35 millj. kr. Að öðru leyti vísast til aðalatriða skýrslunnar sem birt eru í fylgiskjali með tillögunni.

Virðulegi forseti. Rekstrargrundvöllurinn fyrir verkefninu er þessi:

Helstu hópar líklegra viðskiptavina almenningssamgöngukerfis eru framhalds-, sérskóla- og háskólanemar, fólk sem sækir vinnu út fyrir heimabyggð og ferðamenn auk almennings. Auk þess er hugsanlegt að kerfið geti nýst til hagræðingar í akstri grunnskólanema.

Rekstrarkostnaður kerfisins, miðað við þær forsendur sem byggt er á, er áætlaður 34--37 millj. kr. á ári. Rekstrartekjur er erfitt að meta nema að fenginni reynslu en þó er líklegt að greiða þurfi með rekstrinum líkt og nær algilt er varðandi rekstur sem þennan.

Við mat á rekstrargrundvelli kerfisins verður einnig að taka til greina þann kostnað sem sparast mun með tilkomu kerfisins. Kostnaður sem tveir stórir vinnustaðir á svæðinu þurfa að bera vegna aksturs vinnuafls, auk kostnaðar sem sveitarfélög bera af núverandi almenningssamgöngum milli Ólafsfjarðar og Akureyrar, nemur hátt í 6 millj. kr. Til viðbótar verður að taka inn í myndina mögulega hagræðingu í akstri grunnskólanema.

Almenningssamgöngukerfi um Eyjafjarðarsvæðið er skref í átt til mótunar öflugrar heildar sem skapar sterkara mótvægi við höfuðborgarsvæðið, þar sem fólk hefur fjölbreyttara atvinnuúrval, öflugri og betri þjónustu og meira frelsi til búsetuvals.

Almenningssamgöngur eru mikilvægur hluti eflingar Eyjafjarðarsvæðisins sem ferðamannasvæðis.

Gerð er tillaga um að boðinn verði út rekstur almenningssamgöngukerfis í tilraunarskyni. Slík tilraun yrði á vegum sveitarfélaga á svæðinu með stuðningi hins opinbera. Lágmarkstími tilraunar sem þessarar er tvö ár en þyrfti helst að vera lengri, t.d. fimm ár. Að loknum reynslutíma skal árangur tilraunar metinn og ákvörðun tekin um framhaldið.

Virðulegi forseti. Ég vil geta þess að bæjarstjórn Akureyrar hefur fengið málið til umfjöllunar og lýst velvilja í garð þess. Þar í bæ hefur verið tekið vel í þær hugmyndir að almenningssamgöngukerfi fyrir héraðið allt gæti e.t.v. á einhvern hátt tengst strætisvagnakerfi innan sveitarfélagsins Akureyrar.

[17:15]

Að síðustu, virðulegi forseti, vil ég geta þess að hér hefur verið gerð vönduð rekstraráætlun, leiðakerfi með útreikningum sem Rekstur og ráðgjöf Norðurlands ehf. hefur unnið fyrir Ferðamálamiðstöð Eyjafjarðar þannig að hér eru grundvallarplögg lögð til grundvallar.

Að síðustu vil ég geta þess, virðulegi forseti, að Öxarfjarðarhreppur og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hafa gert álíka úttekt fyrir leiðina Akureyri -- Húsavík -- Kelduhverfi -- Raufarhöfn -- Þórshöfn auk Mývatns þar sem á svipaðan hátt og gert hefur verið á Eyjafjarðarsvæðinu er gerð úttekt á möguleikum á almenningssamgöngukerfi í Þingeyjarsýslum. Ég legg til, virðulegi forseti, að sú skýrsla verði tekin með þegar hv. iðnn. fjallar um þetta mál og þess verði freistað að taka þessar tvær skýrslur og leggja þær fram sem grundvöll að almenningssamgöngukerfi sem yrði styrkt í tilraunaskyni í tvö til fimm ár meðan séð verður hvernig útfallið er.

Virðulegi forseti. Fyrst lagði ég þetta mál fram fyrir hartnær þremur árum síðan en mikið hefur gerst í samgöngumálum á þeim tíma. Við vitum allir, hv. þingmenn, hvernig ástandið er í flugmálunum, æ færri staðir njóta nú flugs og það er raunar forkastanlegt að við skulum ekki hafa getað séð þróunina fyrir eins og raunar allar aðrar þjóðir í nágrenni við okkur hafa gert með því að sjá fram á breytt vegakerfi, færri staði sem njóta flugsamgangna og nauðsynina á því að styrkja almenningssamgöngukerfið. Sérleyfiskerfið er gengið sér til húðar, það þjónar ekki landinu lengur, og ég legg til og ég veit reyndar að hæstv. samgrh. er að láta Háskóla Íslands gera úttekt á svipuðum hugmyndagrundvelli að almenningssamgöngukerfi fyrir landið allt. Í því ljósi tel ég einboðið að hefja þessa tilraun svo fljótt sem kostur er, einmitt á Eyjafjarðarsvæði þar sem grunnhugmyndirnar og úttekt á möguleikunum liggja fyrir og þess vegna ætti að taka mjög stuttan tíma, ef vilji er fyrir hendi, að fara í það verkefni.