Umferðaröryggi á Suðurlandsvegi

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 17:24:50 (6289)

2001-04-03 17:24:50# 126. lþ. 104.29 fundur 443. mál: #A umferðaröryggi á Suðurlandsvegi# þál., Flm. KPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[17:24]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um bætt umferðaröryggi á Suðurlandsvegi frá Reykjavík til Hveragerðis.

Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason og Guðmundur Hallvarðsson.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að gera tillögu um aðgerðir til að mæta hárri tíðni umferðaróhappa á Suðurlandsvegi frá Reykjavík að Þrengslum og til Hveragerðis.

Aðgerðir sem skoða verður sérstaklega í þessu sambandi eru lenging klifurreina og lýsing ásamt aukinni þjónustu á veginum.``

Herra forseti. Hér er verið að fela framkvæmdarvaldinu að skoða ákveðnar úrbætur í vegamálum á leið sem allir eru sammála um að þurfi úrbóta við. Við viljum fara faglega að málinu með ráðherranum enda réttast að mínu áliti að skoða röð framkvæmda út frá notagildi og þá með tilliti til þeirra fjármuna sem til ráðstöfunar eru.

Vegagerðin hefur verið að skoða ýmsar lausnir á því að bæta öryggi á þessari leið og hefur kynnt margar þeirra. Þar á meðal er lenging klifurreina sem er ein af þeim hugmyndum sem koma fram í þáltill. Þegar hefur verið hafin vinna við að teikna þessar klifurreinar og hönnun á þeim er hafin frá Sandskeiði og upp fyrir Þrengsli. Það tekur að sjálfsögðu einhvern tíma en að því er virðist mun sú lenging á klifurreinum, ef við ætlum að hafa tvöfalda klifurrein alla Hellisheiðina, vera um 20 kílómetrar og sú framkvæmd mun kosta um 600 millj. kr.

Ýmsar lagfæringar verður einnig að gera samfara tvöföldun á klifurreinum, eins og við Þrengslavegamótin, Heiðmerkurvegamótin og Litlu kaffistofuna. Það eru ýmsir snjóastaðir í Draugahlíðarbrekkum í Svínahrauni sem eru einnig til skoðunar og þarf að lagfæra til að vegurinn sé sem öruggastur allt árið um kring.

Eins og ég sagði áðan kosta slíkar lagfæringar verulega fjármuni eða um 600 millj. kr. en þeir fjármunir eru ekki á vegáætlun. Því er nauðsynlegt að fara fljótt í að ljúka skoðun á þessu máli til að átta sig á því hvernig hlutirnir eigi að verða, hvernig eigi að hanna, hvernig eigi að leggja þá braut og hvernig eigi að koma þessu inn á áætlun sem allra fyrst.

Annað sem við flutningsmenn höfum lagt til að verði skoðað samfara skoðun hæstv. samgrh. er lýsing heiðarinnar. Að okkar áliti er það mjög mikilvæg aðgerð. Ég persónulega þekki mun á því að keyra upplýsta og myrkvaða vegi eftir margra ára akstur um Reykjanesbrautina, og ég fullyrði að ekkert eitt verkefni hefur bætt eins líðan mína við aksturinn og að eiga kost á því að keyra Reykjanesbrautina upplýsta miðað við að þekkja þá leið myrkvaða í hvaða veðri sem er. Frá því að lýsingin var sett upp hefur slysum fækkað. Miðað við viðmiðunarárin fyrir 1997 hefur slysum fækkað um 55% á árunum 1997--1998 samkvæmt úttekt Vegagerðar ríkisins.

Auðvitað er erfitt, herra forseti, að fullyrða að þetta sé allt lýsingunni að þakka, enda ýmsar aðrar aðgerðir sem gerðar hafa verið á veginum sem hafa að sjálfsögðu skilað sínu. Ég tel þó að þetta gefi ákveðna vísbendingu. Eins og ég sagði áðan hef ég persónulega reynslu af því hvernig var að keyra þann veg fyrir og eftir lýsingu og þar er engu saman að jafna og ég er sannfærður um að þetta skilar gríðarlegum árangri.

Ljóst er, herra forseti, að margar aðrar leiðir út af höfuðborgarsvæðinu þarfnast lagfæringa og þær eru kannski þrjár sem við erum fyrst og fremst að tala um, en það eru Vesturlandsvegur, Suðurlandsvegur og Reykjanesbrautin.

[17:30]

Vegagerð ríkisins gerði sérstaka úttekt á tíðni óhappa á þessum þremur leiðum. Þá var fyrst og fremst verið að bera það saman við Vesturlandsveginn frá Reykjavík upp í Mosfellsbæ. Þann veg má í raun líta á sem innan höfuðborgarsvæðisins. Óhappatíðnin á þeirri leið var langmest. Á viðmiðunartímabilinu frá 1992--1998 var óhappatíðnin þar á hverja milljón ekinna km 1,05. Næstmesta óhappatíðnin var á Suðurlandsvegi, þ.e. yfir Hellisheiðina til Hveragerðis. Hún var 0,73 eða 0,70 óhöpp á hverja milljón ekinna km. Á Reykjanesbrautinni voru það 0,60 óhöpp.

Suðurlandsvegurinn er augljóslega mjög hættulegur vegur og löngu tímabært að grípa til aðgerða sem komið geta í veg fyrir þau hræðilegu slys sem þar hafa orðið. Þau eru náttúrlega augljós viðvörun og ástæða til að taka mark á henni. Ég efast ekki um að menn hafa skoðað þetta ítarlega en það er í mörg horn að líta og þess vegna hefur það farið svo að á vegáætlun, annars vegar á fimm ára áætlun og hins vegar á langtímaáætlun, er ekkert fjármagn til úrbóta á Hellisheiði. Aftur á móti er þar fjármagn til að lagfæra hinar tvær leiðirnar að hluta. Loforð hafa hins vegar fengist fyrir því að flýta þeim framkvæmdum og ég á ekki von á öðru en að staðið verði við það sem þar hefur verið sagt.

Það er mikill þrýstingur á að gera sambærilegar breytingar, sem væru að mínu mati viðunandi, til að bæta umferðaröryggi yfir Hellisheiðina. Þær ábendingar sem við komum með um tvöföldun klifurreina og lýsingu eru að sjálfsögðu innlegg í þessa umræðu og til skoðunar frekar en margt annað.

Það verður að segjast, herra forseti, að hér á landi hefur verið ákveðin tregða fyrir því að viðurkenna þörfina á mikilvægum úrbótum á umferðarþungum vegum. Það hefur tíðkast hér að miða umferðarþunga okkar við það sem gerist í Bandaríkjunum eða Evrópu, þar sem eru margfalt fleiri vegfarendur. Aftur á móti finnst mér gleymast að bera saman veðurlag og færð sem skiptir miklu meira máli þegar um er að ræða öryggismál hér. Það er annað þegar menn keyra beina og breiða vegi eins og ég sé erlendis sem eru að auki oft á miklu sléttlendi. Vegirnir hér eru ekki samanburðarhæfir við neitt af því sem er erlendis að mér finnst. Það er því engin ástæða til að miða við einhverja tugi þúsunda bíla áður en farið er í aðgerðir til að bæta öryggi.

Ég vona svo sannarlega að þeir fjármunir sem varið verður til vegagerðar verði auknir mikið við næstu endurskoðun vegáætlunar. Ég held að ef eitthvað er þá höfum við verið allt of íhaldssamir að þessu leyti. Mér finnst að málið hafi verið skoðað út frá röngum forsendum. Mér finnst það líka hafa gleymst, í þeirri umræðu sem snýr að byggðamálum, hvað vegagerð er mikilvægur þáttur í því að halda landinu í byggð. Það hefur í sjálfu sér sáralítið verið í umræðunni hvernig hægt er að stytta leiðir milli helstu þéttbýlisstaða úti á landi frá höfuðborgarsvæðinu. Ég nefni Ísafjörð, Akureyri, Egilsstaði og Hornafjörð. Það er tvímælalaust hægt að stytta leiðina til Ísafjarðar um 100 km ef farin er stysta mögulega leið, með því að fara í gegnum fjöllin og þvera firði. Aksturstíma norður á Akureyri er hiklaust hægt að stytta um klukkustund. Það væri hægt að leggja hálendisvegi sem gætu hugsanlega stytt leiðir til Egilsstaða. Þó ég hafi ekki kynnt mér það mjög rækilega þá eru ýmsar leiðir færar til að stytta aksturstíma þannig að það nýtist þessum þéttbýlisstöðum. Það er ekkert sem tryggir betur búsetu og eykur ánægju fólks úti á landi en að finna að leiðir milli helstu svæða landsins séu greiðar og fljótfarnar.

Slíkar samgöngubætur eru einnig mikilvægar í ljósi umræðunnar um að flug hefur dregist mjög mikið saman. Þar kemur ekkert annað í staðinn en bætt vegakerfi. Ég held að að því leyti verðum við að gera betur en fram að þessu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa öllu lengra mál um þetta. Hér er búið að dreifa þáltill. Í henni kemur fram það sem máli skiptir. Við erum að tala um framkvæmdir sem kosta á bilinu 800--900 millj., þ.e. annars vegar breikkunin og hins vegar lýsingin. Þetta eru ekki það miklar framkvæmdir og ekki það miklir fjármunir að ekki sé hægt að ljúka verkefninu á vegáætlunartímabilinu 2002--2006, þá á ég við alla framkvæmdina.

Að svo mæltu, herra forseti, óska ég þess að málinu verði vísað til hv. samgn.