Afnám eignarskatts á íbúðarhúsnæði

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 18:39:37 (6302)

2001-04-03 18:39:37# 126. lþ. 104.36 fundur 494. mál: #A afnám eignarskatts á íbúðarhúsnæði# þál., DrH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um afnám eignarskatts á íbúðarhúsnæði og sem einn af flutningsmönnum tillögunnar vil ég leggja aðeins orð í belg.

Íslendingar hafa alla tíð lagt metnað sinn í að eignast þak yfir höfuðið. Það hefur þó orðið einhver breyting þar á en ekki er hún nú mikil. Í rauninni er þarna um tvísköttun að ræða, eignarskatturinn er tvísköttun og mjög ósanngjarn skattur. Sérstaklega kemur þetta illa við eldri borgara en eins og fram kom hjá 1. flm., Guðmundi Hallvarðssyni, þá eiga nálægt 85% þeirra sem eru 67 ára og eldri húsnæðið sem þeir búa í og á stærstum hluta húseignanna hvíla litlar eða engar skuldir.

Mikil hækkun fasteignaverðs hefur orðið í landinu og eignarskatturinn kemur því mjög misjafnlega niður á fólki og getur orðið allt að fimmfalt hærri hjá einstaklingi en hjá hjónum enda þótt um sambærilega eign sé að ræða. Um fasteignir ætti að gilda sú almenna regla að á þær verði ekki lögð önnur eignagjöld en fasteignagjöld sveitarfélaganna því að víðast eru fasteignagjöld sveitarfélaga aðaltekjustofn þeirra og er vægast sagt óráðlegt að ríkið sé þá einnig að höggva í sama knérunn.

Herra forseti. Það er von mín að þetta merka mál nái fram að ganga.