Almannatryggingar

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 18:58:35 (6308)

2001-04-03 18:58:35# 126. lþ. 104.37 fundur 502. mál: #A almannatryggingar# (sjúkraflug) frv., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[18:58]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar.

Þetta litla frv. var flutt á síðasta þingi en fékk ekki afgreiðslu. Þetta er breyting á þeim kafla laganna sem er 36. gr. og er um hvað sjúkratryggingar greiði og það er m.a. sjúkraflug.

Ég ætla að lesa frv. en 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,6. málsl. i-liðar 36. gr. laganna orðast svo:

Séu liðnar 36 klst. eða meira frá innritun sjúklings greiðist flutningskostnaður milli sjúkrahúsa að fullu af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling nema um sé að ræða flutning milli sjúkrahúsa í sama sveitarfélagi og heilsu sjúklings sé þannig varið að hann geti notað venjulegar farþegaflutningsleiðir.``

Í greinargerð með frv. segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt gildandi lögum greiðir Tryggingastofnun ríkisins kostnað við sjúkraflug ef sjúklingur er fluttur beint að heiman frá sér en sé hann fluttur af sjúkrahúsi greiðir viðkomandi stofnun flutninginn. Þetta fyrirkomulag hefur þann galla að minni sjúkrahús veigra sér við að innrita sjúklinga sem gætu þurft á sjúkraflugi að halda vegna þess að kostnaðurinn gengur nærri fjárhag lítilla stofnana. Það ýtir undir að sjúklingar séu strax sendir á sjúkrahús í Reykjavík eða á Akureyri í stað þess að gangast undir rannsókn heima fyrir til að ganga úr skugga um hvort sjúkraflug reynist nauðsynlegt. Einnig leiðir þetta til ónákvæmrar skráningar í þeim tilfellum þegar sjúklingur nýtur aðhlynningar á litlu sjúkrahúsi áður en til flutnings kemur. Sú breyting sem hér er lögð til mundi koma minni sjúkrahúsunum til góða, bæta nýtingu þeirra og draga úr sjúkraflugi.``

[19:00]

Herra forseti. Þannig er mál með vexti að einkenni sjúkdóma eru ekki alltaf ljós strax í byrjun og það hefur þótt ágæt vinnuregla að huga að þróun sjúkdómsins áður en sjúklingur er fluttur beint að heiman og til viðkomandi sjúkrahúss. Tökum bara tilbúið dæmi, við getum sagt magasár þegar einkenni koma fram sem geta bent til þess að blæðing sé yfirvofandi. Ég skálda þetta nú bara hér á staðnum. En í stað þess að senda sjúkling beint með sjúkraflugi á stærra sjúkrahús gæti verið hyggilegra að bíða aðeins og sjá hvort sjúkdómsgreining væri rétt eða hvort einkennin gengju til baka.

Öllum kemur til góða að hafa smá umhugsunartíma til að meta hvort sjúkdómurinn sé þess eðlis að sé hægt að ráða við hann heima fyrir, oft bara með þeim mannafla sem er til staðar eða með utanaðkomandi hjálp í gegnum síma, hvernig eigi að fara með viðkomandi sjúkling og hlynna að honum og vita hvort ekki sé hægt að ráða við þetta og lækna heima fyrir.

Þar sem þetta hefur þótt eðlileg afgreiðsla þá hefur verið alls konar, við getum sagt, feluleikur varðandi innlögn. Menn hafa viljað aðeins hinkra, sjá til án innlagnar. En í raun og veru samkvæmt ströngustu reglum þá hafa menn ekki átt að flytja sjúkling á sjúkrahús í heimabyggð án þess að innrita hann. Við þessar aðstæður hefur stundum fallið töluverður kostnaður á viðkomandi sjúkrahús á meðan verið er að bíða og það þarf kannski að gera einhverjar rannsóknir eða alla vega þarf þarna umönnun og meðferð á meðan verið er að meta sjúkdóminn.

Þessi tilraun hefur verið gerð á Heilsugæslustofnun Austurlands og ég veit ekki betur en að hún hafi gengið mjög vel. Því endurflyt ég þetta frv. núna með von um að þessi heilbrigða skynsemi nái fram að ganga.