Friðargæsla

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 13:51:39 (6317)

2001-04-04 13:51:39# 126. lþ. 106.1 fundur 618. mál: #A friðargæsla# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Alþjóðaskrifstofa utanrrn. hefur yfirumsjón með að auka þátttöku Íslands í friðargæslu í samræmi við niðurstöðu starfshóps frá því í október sl. Þar kemur fram að stefnt sé að því að fjölga íslenskum starfsmönnum um fimm á ári næstu þrjú ár þannig að þeir verði 25 á árinu 2003. Síðustu þrjá mánuði hefur verið unnið að undirbúningi en taka þarf tillit til fjölmargra þátta, svo sem kjaramála, trygginga starfsfólks og þjálfunar svo fátt eitt sé nefnt. Undirbúningsvinna hefur verið unnin í samráði við stofnanir og félög, bæði innan lands og utan.

Í sumar er stefnt að því að hefja kynningarstarf og auglýsa eftir fólki sem er reiðubúið að taka þátt í friðargæslu á vegum Íslands. Að loknu kynningarstarfi verður valið úr hópi umsækjenda og þeim raðað á sérstakan lista sem hlotið hefur nafnið Íslenska friðargæslan. Stefnt er að því að á listanum verði allt að 100 einstaklingar sem geta farið í friðargæslustörf með skömmum fyrirvara, komi ósk um það frá hinu alþjóðlega samfélagi. Stefnt er að því að þessi hópur fái ákveðna grunnþjálfun hér á Íslandi en sérstaka þjálfun hjá viðkomandi alþjóðastofnunum þegar nær dregur störfum og ljóst er orðið hvaða verkefni þeim verða falin á vettvangi.

Við undirbúning þjálfunar á Íslandi verður leitað í smiðju innlendra aðila sem hafa reynslu af friðargæslustarfi, þekkingu á hættuástandsstjórnun og öryggismálum og utanrrn. mun skipuleggja fræðslu um alþjóðastofnanir með tilliti til friðargæslu og þátttöku Íslands. Til greina kemur að fulltrúar alþjóðastofnana komi einnig beint að grunnþjálfun hérlendis. Það verður nánar greint frá skipulagi þessarar þjálfunar síðar.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi öflugri þátttöku íslenskra lögreglumanna og hjúkrunarfólks á næstu árum og að efling framlags Íslands til friðargæslu verði einna mest í borgaralegu starfsliði alþjóðastofnana. Haft verður að leiðarljósi að þekking, menntun og reynsla íslenskra starfsmanna komi að sem mestum notum á hverjum tíma. Með því á ég við að ýmsar aðrar þjóðir eru betur til þess fallnar að sinna ákveðnum þáttum friðargæslu en Íslendingar, t.d. þeim sem snúa beint að hernaðarlegum þáttum starfsins. Hins vegar búum við Íslendingar yfir margs konar sérþekkingu sem stenst fyllilega samanburð við aðrar þjóðir og í sumum tilvikum gott betur. Þá þekkingu viljum við nýta í friðargæslu- og uppbyggingarstarfi.

Eins og fram kemur í skýrslu starfshóps um friðargæslu er miðað við að meðaltalskostnaður við hvern starfsmann í friðargæslu sé um 9 millj. kr. á ársgrundvelli. Innifalinn í þessari upphæð er þjálfunarkostnaður, búnaður, ferðakostnaður, lækniskostnaður o.fl. Gert er ráð fyrir að fjárveiting til friðargæslu hækki um 45--55 millj. kr. á ári næstu tvö ár svo hægt sé að standa undir kostnaði af allt að 25 starfsmönnum erlendis árið 2003 en áætlaður kostnaður af þeim fjölda starfsmanna er 225 millj. kr. á ári. Ofan á það bætist kostnaður aðalskrifstofu utnarrn. vegna aukinnar umsýslu og því má ætla að kostnaður vegna íslenskra starfsmanna í friðargæslu á árinu 2003 verði um 240 millj. kr. miðað við núverandi verðlag og 25 starfsmenn erlendis.

Aukin þátttaka í alþjóðlegri friðargæslu er að sjálfsögðu liður í því að Íslendingar axli ábyrgð innan NATO og áform stjórnvalda þar um hafa verið tilkynnt Atlantshafsbandalaginu. Atlantshafsbandalagið hefur líkt og flestar aðrar alþjóða- og svæðisbundnar stofnanir tekið miklum breytingum á undanförnum árum í takt við breyttar aðstæður í alþjóðakerfinu. Með endurskoðaðri öryggismálastefnu bandalagsins sem samþykkt var á leiðtogafundinum í Washington árið 1999 er undirstrikað vægi sameiginlegra aðgerða bandalagsins utan svæðis, aðgerða á borð við SFOR í Bosníu og KFOR í Kosovo. Þátttaka okkar verður þó ekki bundin við aðgerðir NATO heldur er ætlunin að Íslenska friðargæslan geti ekki síður komið að gagni í aðgerðum Sameinuðu þjóðanna og ÖSE.

Rétt er að taka fram að kveikjan að skipun þessa starfshóps sl. haust var ekki síst þátttaka Íslands í sameiginlegri öryggis- og varnarstefnu Evrópusambandsins. Eins og kunnugt er á sér nú stað mikilvæg þróun í evrópskum öryggis- og varnarmálum og þó íslensk stjórnvöld hafi litið svo á að aðild Íslands að NATO tryggi þátttöku í mótun ákvarðana á sviði öryggis- og varnarmála var Evrópubandalagsríkjunum sex í NATO sem ekki eru aðilar að ESB boðið að tilkynna um framlag sitt inn í þessar aðgerðir og þetta er liður í því.