Friðargæsla

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 13:56:59 (6318)

2001-04-04 13:56:59# 126. lþ. 106.1 fundur 618. mál: #A friðargæsla# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir ákaflega greinargóð svör. Mér þætti þó gott að fá nánari svör um það hvað hæstv. ráðherra heldur að þetta krefjist margra starfsmanna í ráðuneytinu og kannski nánari svör um það til hvaða félaga og stofnana, bæði innan lands og erlendis hafi verið leitað og verði leitað í þessum undirbúningi því að eins og kemur fram í svari hæstv. utanrrh. er hér um mjög viðamikil verkefni að ræða. Það er ekki bara kostnaðarsamt, það er líka mjög viðamikið og gott væri að fá það fram hverjir fleiri koma að þeim undirbúningi.

Það gleður mig líka að heyra að lögð sé áhersla á það að þeir sem eigi að taka þátt í friðargæslu fyrir Íslands hönd skuli vera hluti af borgaralegu starfsliði, enda hlýtur það að teljast eðlilegt í herlausu landi að lögð sé áhersla á slíkt og aðrir betur til þess fallnir að taka að sér hermennskuna eins og hæstv. ráðherra sagði.

Einnig er fengur í því að heyra og fá það staðfest hér, herra forseti, að friðargæslan sé sem slík liður í þátttöku okkar í NATO og liður í því samstarfi sem er á milli NATO og Evrópusambandsins vegna varnarstoðarinnar þar sem eins og við vitum að Íslendingar og íslensk stjórnvöld hafa haft nokkrar áhyggjur af framvindu mála þar og því hver aðkoma okkar yrði að því máli. En við munum áfram fylgjast vandlega með því hverju fram vindur og ég vænti þess að eigi síðar en í haust greini hæstv. utanrrh. okkur frá hvernig kynningu á þessu starfi verður háttað.