Samfélagsþjónusta

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:09:08 (6323)

2001-04-04 14:09:08# 126. lþ. 106.2 fundur 563. mál: #A samfélagsþjónusta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:09]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir hennar innlegg.

Eins og við var að búast er greinilegt að hæstv. dómsmrh. hefur þegar tekið þetta mál í sínar hendur. Hún ætlar að kanna hvernig þessum málum er best fyrir komið. Ég tel það afar mikilvægt, líka með tilliti til þess að áhöld hafa verið um hvort gengið sé gegn ákveðnum meginreglum í íslensku réttarfari og um leið dómskerfinu.

Ljóst er að þetta refsiúrræði hefur borið mjög góðan árangur. Auðvitað verður það annarra að taka tillit til þess en engu að síður er það mitt mat og annarra, þar á meðal Dómarafélags Íslands, að ákvörðun um þetta úrræði er best fyrir komið hjá dómstólunum sjálfum.