Átak í lífrænni ræktun

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:18:56 (6324)

2001-04-04 14:18:56# 126. lþ. 106.4 fundur 580. mál: #A átak í lífrænni ræktun# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. landbrh. um sérstakt átak í lífrænni ræktun og hún er í fjórum liðum sem ég ætla að lesa upp:

1. Hvernig hefur verið unnið að því að auka hlut landbúnaðarafurða, sem hlotið hafa lífræna vottun, samkvæmt ályktunum Alþingis 4. júní 1998 og 10. mars 1999?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir breyttum áherslum í íslenskum landbúnaði við gerð næstu búvörusamninga með tilliti til aðlögunarstuðnings við lífrænan landbúnað?

3. Mun ráðherra leggja áherslu á fjölskyldubú í næstu samningum eins og gert hefur verið erlendis eða mun ráðherra styrkja sérhæfingu í búskap sem oft leiðir til einhæfni og verksmiðjubúskapar?

4. Hyggst ráðherra beita sér fyrir sérstöku átaki í lífrænum landbúnaði með tilliti til þeirrar þróunar sem orðið hefur í útbreiðslu sjúkdóma í búfé?

Herra forseti. Víða um Evrópu er nú verið að endurskoða landbúnaðarstefnuna með tilliti til þeirra alvarlegu sjúkdóma sem komið hafa upp í búpeningi nú í vetur. Nýr landbúnaðarráðherra Þýskalands, Renate Künast, sem einnig fer með málefni er varðar neytendur og matvæli, hefur boðað veigamikla stefnubreytingu í landbúnaði. Með því vill hún koma til móts við vaxandi þarfir hóps neytenda sem gera kröfur til aukinnar áherslu á lífrænar aðferðir í stað verksmiðjuaðferða í framleiðslu á landbúnaðarafurðum. Künast er ein þeirra sem lítur á kúariðuvandann sem táknræn endalok úreltra framleiðsluaðferða og hugsunarlausrar neyslu afurða þar sem framleiðslumagn er haft að leiðarljósi fremur en gæði vörunnar.

Herra forseti. Þó við séum enn svo lánsöm hér á landi að stór hluti landbúnaðarins skuli vera blandaður búskapur og fjölskyldubú þá hafa síðustu samningar um sauðfjárrækt og mjókurframleiðslu frekar vísað bændum inn á þá braut að sérhæfast og stækka búin innan einnar búgreinar í stað þess að halda í blandaðan búskap og miða við að gott fjölskyldubú skili eðlilegum tekjum. Í nýjustu samningum er enginn hvati eða markmið til að auka hlut lífrænnar framleiðslu.

Verksmiðjubúskapur er kominn inn í nokkrar greinar hér á landi og er hvað stærstur í hænsnaræktinni, þ.e. kjúklinga- og eggjaframleiðslu og eins í svínarækt. Fram til þessa hafa flestir íslenskir neyendur sett kröfu um lágt vöruverð ofar kröfu um gott framleiðsluferli og hollustu vörunnar. En á þessu er að verða breyting og því má segja að hinir alvarlegu sjúkdómar í dýrum og ótti við smit með þeim vörum sem fluttar eru inn í landið hafi opnað augu okkar fyrir því að of miklu hefur e.t.v. verið fórnað fyrir mikil afköst og lágt vöruverð.