Átak í lífrænni ræktun

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:28:34 (6327)

2001-04-04 14:28:34# 126. lþ. 106.4 fundur 580. mál: #A átak í lífrænni ræktun# fsp. (til munnl.) frá landbrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir það að mér þóttu svör hæstv. ráðherra heldur þunn í roðinu og það virðist vera unnið á hraða snigilsins a.m.k. hvað það varðar að endurmeta stöðu hlutanna í ljósi atburða að undanförnu.

Hæstv. ráðherra orðaði það einhvern veginn þannig að hann vildi ekki að íslenskur fjölskyldubúskapur yrði borinn saman við evrópsku verksmiðjubúin sem væru nú að hrynja ofan á höfuðin á evrópskum bændum. Ég held að þarna eigi að varast allar alhæfingar. Staðreyndin er sú að það eru til lönd í Evrópu sem standa dyggan vörð um hefðbundinn fjölskyldubúskap. Má þar nefna Sviss og alpabúskapinn þar og það mætti einnig nefna að mörgu leyti Noreg sem einmitt hefur byggt á því að varðveita hefðbundnar fjölskyldueiningar í norskum landbúnaði. Á hinn bóginn má líka líta til þess að á Íslandi hafa menn jafnvel leyft stórfelldari samþjöppun og meiri verksmiðjubúskap en víðast hvar annars staðar og ég nefni þar sem dæmi svínarækt. Á Íslandi eru ekki sambærileg ákvæði, t.d. um afnot svínabænda af landi til þess að afsetja áburð, eins og er í Danmörku og tryggja ákveðna dreifingu (Forseti hringir.) þeirra búskaparhátta þar í landi. Þar gætum við Íslendingar lært af öðrum en ekki öfugt.