Átak í lífrænni ræktun

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:31:00 (6329)

2001-04-04 14:31:00# 126. lþ. 106.4 fundur 580. mál: #A átak í lífrænni ræktun# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég ætla að vona að það hafi komið skýrt fram í máli mínu áðan að ég var ekki að líkja ástandinu hér við það sem verst gerist í Evrópu, verksmiðjubúskapinn eins og hann er hvað sóðalegastur þar. Ég lýsti aftur á móti framleiðsluháttum hér, með hefðbundnum fjölskyldueiningum í búskapnum og ég vil að við styðjum við þær einingar.

Ég sakna hins vegar þess að við skulum ekki setja okkur markmið, áætlun um hvernig við ætlum að koma á auknum lífrænum búskap með ákveðnu prósentutali, til einhverra ára og fara að vinna að því. Ég ætla að vona að það komi inn í næsta búvörusamning og að sú krafa komi frá bændum sjálfum. Sannarlega tíðkast hér fjölskyldubúskapur og þau bú styrkja byggðirnar. Við horfum upp á að með frjálsu framsali á kvóta, bæði á mjólk og sauðfé, þá fækkar í sveitum. Ég hvet hæstv. landbrh. til að fylgjast vel með þeirri þróun. Eina leiðin til að grípa þar inn í er í gegnum búvörusamninga við bændur. Vissulega er verið að koma á gæðastjórnun í landbúnaði. Það getur komið okkur inn á vistvænni braut en þá verðum við að fara að vinna eftir þeim reglum.

Herra forseti. Mér er ljóst að ýmislegt er verið að gera. Bændaháskólinn á Hvanneyri hefur komið upp sérstakri braut í lífrænum landbúnaði. Átaksverkefnið er í gangi og er ýmislegt að gera en við verðum að hætta að halda að okkur höndum. Við þurfum að breyta áherslum í landbúnaði og fara að auka mátt lífrænna búskaparhátta.