Staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:36:56 (6331)

2001-04-04 14:36:56# 126. lþ. 106.94 fundur 452#B staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Kjarasamningar sjómanna og útvegsmanna hafa meira og minna verið í uppnámi um árabil. Sjómenn hafa á síðustu 14 árum mátt búa við að vera samningslausir um það bil helming þess tíma. Síðast höfðu þeir verið samningslausir í meira en ár áður en verkfallsvopninu var beitt til að mynda þann þrýsting sem augljóslega þurfti til að koma í gang alvöruviðræðum. Það verkfall hafði hins vegar ekki staðið nema liðlega þrjá sólarhringa þegar stjórnvöld gripu inn í og frestuðu því um hálfan mánuð. Nú er sá tími liðinn. Samningar tókust ekki, enda þrýstingurinn af tekinn. Verkfall er skollið á að nýju.

Þetta söguágrip, herra forseti, sýnir glögglega í hve sérkennilegri stöðu sjómenn eru og hve samningsumhverfi þeirra er erfitt. Starfsumhverfi þeirra og þar með samningsumhverfi er mjög mótað af stjórnvöldum, einkum þó ráðherrum Sjálfstfl. sem hafa nú setið í sjútvrn. samfellt í rúman áratug. Þeir bera því umfram aðra ábyrgð á því fyrirkomulagi sem ríkir í greininni, þ.e. að viðskipti með afla skuli ekki lúta eðlilegum viðskiptalögmálum. Þeir hafa með útvegsmönnum staðið gegn því að eðlilegir viðskiptahættir fái að ríkja í greininni, heldur gildir verðsamráðsreglan eða að útvegsmenn geti keypt afla af sjálfum sér á verði sem er fjarri markaðsverði og jafnvel notað veiðiheimildir sem gjaldmiðil. Þessi staða minnir í ýmsu, herra forseti, á grænmetismarkaðinn og markar auðvitað mjög stöðu sjómanna þegar kemur að samningum.

Eftir tvo daga fara þingmenn í páskaleyfi. Þingið gerir þá kröfu til hæstv. sjútvrh. að hann, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, tali skýrar en hann hefur gert um hvort það sé afdráttarlaust að nú verði aðilum gefið það svigrúm sem þeir telja sig þurfa til að ljúka samningum sínum. Það hefur ráðherra ekki gert. Svör hans hafa verið misvísandi og loðin. Það er ekki nóg að það sé sjónarmið ráðherranna að deiluaðilar þurfi að leysa deiluna þegar sjútvrh. bætir því við að takmörk séu fyrir því hvað hægt sé að láta svona deilu standa lengi, eins og hann orðaði það í Bylgjufréttum á sunnudag. Eða þegar á hann var gengið með það í sjónvarpinu sama kvöld hvort sett yrðu lög á verkfallið svaraði hann því til að um það vildi hann ekkert segja núna.

Vegna ábyrgðar stjórnvalda á starfsumhverfinu er líka nauðsynlegt, herra forseti, að það sé gert alveg skýrt hvort stjórnvöld ætla að mæta þeim kröfum sem gerðar hafa verið um breytingar á frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa. Í þeim eru ákvæði sem stjórnvöld vita að standa eins og fleinn í holdi stéttarfélaganna.

Herra forseti. Sjútvrh. sagði í fjölmiðlum, dagana áður en gripið var inn í deiluna með lagasetningu, að slíkt stæði ekki til. Menn geta því spurt og það réttilega hvort ástæða sé til að trúa orðum ráðherra núna, um að deiluaðilar fái að ljúka málum sínum með samningum. Ég hef sagst vilja gera á því greinarmun hvort ráðherra lætur þau orð falla í fjölmiðlum eða hvort hann gerir slíkt úr ræðustóli Alþingis. Ég vil trúa því að orð ráðherra séu þyngri, þeim fylgi meiri ábyrgð, séu þau mælt í þingsalnum.

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar tækifæri til þess hér og nú að senda deiluaðilum ákveðnari skilaboð en hann gerði í fjölmiðlum í þann mund sem verkfallið var að skella á aftur. Það er engin þörf á að menn víki sér undan því að svara einarðlega. Deiluaðilar þurfa hins vegar á því að halda að vita nákvæmlega hvar þeir standa. Ég skora því á ráðherra að axla ábyrgð ríkisstjórnarinnar á því hvernig komið er og nýta þetta tækifæri til að gera hreint fyrir sínum dyrum og ríkisstjórnarinnar hvað framangreind atriði varðar. Þannig mundi hann treysta forsendurnar fyrir því að báðir aðilar takist á við það verkefni sitt að semja í fullvissu þess að það sé þeirra að ljúka samningi og axla ábyrgð af framkvæmd þess samnings.