Staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:41:57 (6332)

2001-04-04 14:41:57# 126. lþ. 106.94 fundur 452#B staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er vissulega ekki góð staða sem uppi er í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Ég hefði gjarnan viljað að þetta verkfall hefði ekki skollið á aftur en því miður reyndist ekki unnt að ljúka deilunni fyrir 1. apríl sl. Hins vegar er það ekki svo að deiluaðilar séu ekki að reyna. Ég þykist fullviss um að þeir séu að reyna að ná samkomulagi og staðan er heldur ekki sú að ekkert hafi þokast. Hins vegar þokast afar hægt. Það er kannski ekkert skrýtið því að þetta er áralöng deila sem ekki hefur reynst unnt að leysa og sífellt hefur verið frestað til betri tíma, ef hægt er að tala um að sá tími sé til.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir vill heyra frá mér hvað ég muni leggja til varðandi þessa deilu á næstunni. Hún telur að ég tali eitthvað öðruvísi úr ræðustól á hv. Alþingi en annars staðar. Það geri ég ekki. Ég segi nákvæmlega sömu hlutina við hv. þm. og við aðra sem ég ræði þessi mál við. Ég segi sannleikann og tala af jafnmikilli hreinskilni, alveg sama við hvern ég er að tala og alveg sama hvar ég segi hlutina. Ég endurtek því það sem ég hef sagt áður, að deilan verður ekki leyst á Alþingi. Það eru einungis deiluaðilar sjálfir sem geta leyst deiluna og leitt hana til lykta. Afskipti Alþingis hafa einungis verið til þess að fresta niðurstöðu deilunnar og ég tel þess vegna nauðsynlegt að deiluaðilar fái svigrúm til að leysa þessa gömlu og torleystu deilu.

Hins vegar er það líka svo, það held ég að allir viti sem um þessi mál fjalla á annað borð, að verkfall sjómanna á Íslandi getur ekki staðið endalaust. Þetta hef ég líka sagt deiluaðilum. Þeir gera sér fullkomlega grein fyrir því. Þeir vilja hins vegar tíma og þurfa tíma. Ég vil leitast við að gefa þeim þann tíma sem þeir þurfa. En þeir hafa ekki ótakmarkaðan tíma til að leysa þessa deilu. Það þolir íslenskt þjóðarbú og íslenskt efnahagslíf ekki.

Lengsta verkfall sjómanna síðustu 20 árin stóð í þrjár vikur. Ég er ekki að segja að það sé tímasetning sem skipti máli í þessu samhengi en ég segi þetta einungis til að menn leiði hugann að því hversu mikinn tíma menn hafa, menn skoði þetta aðeins í því samhengi. Deiluaðilar hafa sjálfir nefnt styttri tíma. Ég ætla hjartanlega að vona að þeir geti leyst þetta á þeirri viku eða rúmlega það eins og hluti þeirra hefur nefnt í þessu efni.

Ég endurtek að deilan verður ekki leyst nema af hálfu deiluaðila sjálfra. Í dag eru engin áform uppi um að leggja til lagasetningu sem fresti deilunni. Ég vil að deiluaðilar leysi deiluna sjálfir en ég vil líka að þeir og allir viti að þeir hafa ekki endalausan tíma til þess.

Að endingu er kannski ágætt að hafa það í huga að þegar deiluaðilar eru komnir af stað með að finna lausnina, eru að vissu leyti búnir að rjúfa ákveðinn múr og deilan, eins og fram hefur komið, er farin að snúast meira um krónur og aura en grundvallaratriði, þá er líka erfiðara fyrir löggjafann að grípa inn í deiluna og fresta henni með lagasetningu. Þess vegna má segja að þegar deiluaðilar hafa þó náð þeim árangri, sem fram hefur komið að þeir hafa náð, þá er ábyrgð þeirra á því að leiða þessa deilu til lykta enn meiri. Þeir þurfa að gera það farsællega þannig að lausnin sé til frambúðar og við þurfum ekki að endurupplifa svipaðar deilur að skömmum tíma liðnum.