Staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:46:35 (6333)

2001-04-04 14:46:35# 126. lþ. 106.94 fundur 452#B staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:46]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það vantar mikið upp á að hæstv. sjútvrh. gefi afdráttarlaus svör. Mér fannst hann kominn æðinærri því að hóta lagasetningu að liðinni einni viku. Í þeirri harðvítugu baráttu sem Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur háð gegn sjómönnum og m.a. hefur leitt til þess að þeir hafa á undangengnum 14 árum verið án kjarasamninga í 61/2 ár, þar með kjarasamningslausir í 13 mánuði áður en til verkfalls kom, þá hafa útvegsmenn alltaf getað reitt sig á að ríkisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar leysti þá niður úr snörunni með lagasetningu. Þess vegna er rökrétt að álykta og reyndar fullyrða að ríkisstjórnin beri mikla ábyrgð á þeim hnút sem þessi kjaradeila er komin í. Mér finnst mikilvægt að þjóðin geri sér grein fyrir þeirri óbilgirni sem sjómenn mæta af hálfu útvegsmanna þegar þeir bera fram kröfur um að hækka tekjutryggingu sjómanna, að hækka tekjutryggingu háseta sem nú er í 86 þús. kr., að laga lífeyrisréttindin og færa þau í svipað horf og aðrar stéttir hafa samið um, að laga slysatryggingu sjómanna og að sjálfsögðu að taka á ranglátu verðmyndunarkerfi sem sjómenn hafa um árabil reynt að knýja fram viðræður um við útvegsmenn.

Deiluaðilar, þá er ég ekki aðeins að tala um sjómenn heldur miklu fremur um útvegsmenn, þurfa afdráttarlaust að fá að vita að ríkisstjórnin muni ekki leysa þá niður úr snörunni með lagasetningu að þessu sinni. Þess vegna þarf hæstv. sjútvrh. að tala miklu skýrar en hann gerði í ræðu sinni áðan.