2001-04-04 15:37:43# 126. lþ. 106.95 fundur 453#B viðbrögð stjórnvalda við áliti samkeppnisráðs um ólögmætt samráð á grænmetismarkaði# (umræður utan dagskrár), landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir gífuryrði og stóryrði hv. þm. vil ég þakka honum fyrir að taka upp þessa umræðu og vona að hún verði málefnaleg.

Það er alveg ljóst að sá sem hér stendur harmar öðrum fremur þá stöðu sem upp er komin, harmar þær reyfarakenndu lýsingar, sem eru eins og úr skáldsögu eftir stórskáld, á þeim gjörðum sem fyrirtækin eru sökuð um að hafa staðið að. Þetta hittir mig sem viðkvæman mann ekki síður en aðra.

Ég tel íslenskar landbúnaðarafurðir með þeim bestu í veröldinni og ég hef sem landbrh. reynt að beita mér fyrir því að við gætum boðið neytendum þessar afurðir á sem lægstu verði. Ég vil segja hér að hagsmunir neytenda og bænda fara ávallt saman. Meiri neysla þýðir meiri sölu og meiri framleiðslu eftir því sem við búum við betra lýðræðislegt fyrirkomulag og samkeppni, heiðarlega samkeppni á markaði. Það er ólíðandi að fyrirtæki eða einstaklingar geri með sér samsæri gegn hagsmunum almennings í landinu. Það er ólíðandi. Hverra hagsmuna er verið að gæta? Ég vil segja hér: Þar er ekki verið að gæta hagsmuna íslenskra bænda.

Ég vil gera skýran greinarmun á því sem fram kemur í skýrslunni. Annars vegar er fjallað um ólöglegt samráð fyrirtækja á markaði sem ég fordæmi ef satt er, hins vegar um þá alþjóðlegu tolla og lög sem gilda um grænmetismarkaðinn.

Ég vil við upphaf þessarar umræðu segja að um nokkra hríð hefur það verið á vinnuborði mínu að reyna að koma þessum málum í farsælan farveg í fullri sátt í ríkisstjórninni. Við leitum leiða til þess. Það er vilji í ríkisstjórn til að lækka verð á grænmeti. Það er vilji í ríkisstjórn til að koma í veg fyrir þau miklu átök sem gjósa ávallt upp um þetta leyti árs.

Ég hef sagt í fjölmiðlum og segi hér: Ég er tilbúinn að leita nýrra leiða og reyna að ná sátt um þær. Ég vil sjá tolla lækkaða. Ég tek undir með Samkeppnisstofnun og manneldisfræðingum að þessi matvara þarf að vera ódýr og aðgengileg. Þess vegna vil ég beita mér fyrir því að við skoðum annars konar kerfi hvað þetta varðar og horfum til meiri sátta þannig að þessi vara verði ekki að ófriðarefni heldur almenningi aðgengileg og ódýr.

Hvað fyrstu spurningu hv. þm. varðar þá vil ég segja: Ólögmætt samráð um verðmyndun í heildsölu eða á smásölustigi skaðar neytendur og bændur. Ótti bænda allra landa er að dreifingaraðilar á þessum sölustigum muni taka meira og meira til sín af því verði búvara sem neytandinn greiðir, hvort sem það gerist löglega eða ólöglega. Öll lögbrot þarf að stöðva. Á meðan ekki hefur fallið fullnaðardómur í þessu máli er ekki rétt að slá því föstu að lög hafi verið brotin. Vil ég því ekki hér fjalla frekar um það leiðindamál.

Ekkert í lagasetningu á að geta auðveldað eða hvatt til lögbrota. Þróunin um allan heim er að dreifingar- og sölufyrirtækjum á matvælum í heildsölu og smásölu fækkar. Við Íslendingar höfum staðið frammi fyrir því á síðustu árum. Þau ná yfirburðastöðu gagnvart bændum sem reka smæstu fyrirtæki í heimi. Samkeppnislöggjöfinni er ætlað að vernda neytendur og smáa framleiðendur gegn ofríki þeirra stóru. Ég vona líka að samkeppnislög okkar sem sett voru af hinu háa Alþingi hafi verið grundvölluð á þessum hugsjónum.

Verndartollar skipta ekki sköpum í þessu máli frekar en í öðrum málum fyrirtækja með ólögmæta markaðstilburði og ættu ekki að geta skýlt lögbrjótum í verðlagsmálum, séu þeir til staðar. Íslenskir græmetisbændur og kartöflubændur hafa keppt að því að bjóða hollustu framleiðslu sem þekkist á sem hagkvæmustu verði. Frá því að WTO-samningurinn tók gildi hafa þeir óttast þá þróun sem stéttarbræður þeirra erlendis hafa upplifað, þ.e. að öflug fyrirtæki á heimsmarkaði hafa tekið til sín stærri og stærri hluta af krónu neytandans, jafnvel á mörkum þess löglega.

Umræða um verðmyndun á innfluttri papriku var kærkomið tilefni fyrir mig og ég hef óskað eftir því við Samkeppnisstofnun að verðmyndunin í heild verði skoðuð fyrir 15. mars og eftir 15. mars. Formaður Neytendasamtakanna sagðist (Forseti hringir.) hafa óskað eftir þessari skoðun fyrir tveimur árum.

Hæstv. forseti. Nú hef ég því miður ekki komist yfir tvær seinni fyrirspurnirnar sem ég hefði gjarnan viljað svara í þessari stuttu utandagskrárumræðu. Ég verð að gera það í þeim stutta tíma sem ég hef síðar í þessari umræðu, nema hæstv. forseti vilji lengja umræðuna. (Forseti hringir.) Svo er ekki að heyra á bjölluhljómnum.