2001-04-04 15:45:26# 126. lþ. 106.95 fundur 453#B viðbrögð stjórnvalda við áliti samkeppnisráðs um ólögmætt samráð á grænmetismarkaði# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Íslenskir garðyrkjubændur og fyrirtækin sem eru að hluta í þeirra eigu liggja nú undir miklum ámælum. Umræðan má ekki fara í þann farveg að garðyrkjubændur séu gerðir að sökudólgum í þessu máli. Þarna þarf að draga skýr mörk milli bænda og söluaðila. Ólögmætt samráð og samkeppnishömlur er niðurstaða Samkeppnisráðs. Þetta eru ólíðandi viðskiptahættir af hálfu söluaðila. Þarna eru þeir komnir út á hála braut. Svona gera menn einfaldlega ekki.

Það vekur furðu að svo virðist sem samruni afurðasölufyrirtækja í landbúnaði sé meðhöndlaður með öðrum hætti en samþjöppun á sviði smásöluverslunar. Hagsmunir bænda og neytenda fara saman. Nauðsynlegt er að sátt ríki í þjóðfélaginu um markaðinn, aðstöðu landbúnaðarins og búskaparaðferðir. Það gengur ekki að stríð ríki á milli bænda og kaupmanna.

Herra forseti. Í allri búvöruframleiðslu er uppi hörð krafa um hagræðingu og öllum er nokkuð ljóst að aukin samkeppni við innflutning er sá veruleiki sem við blasir. Þegar skoðuð er skipting neytendaverðs milli framleiðenda, afurðasölufyrirtækja, smávöruverslunar og ríkis kemur í ljós að hlutur smásalans hefur í flestum tilvikum vaxið á undanförnum árum. Í raun hefur skilaverð til garðyrkjubænda fyrir afurðirnar lækkað á meðan ýmsir kostnaðarliðir bóndans hafa hækkað. Þessi þróun hefur orðið þrátt fyrir að hlutverk verslunarinnar, að afhenda vöruna yfir borið, hafi lítið breyst. Niðurstaðan hefur verið verðhækkun til neytenda en minnkandi afrakstur til framleiðenda.

Hvað er til ráða, herra forseti? Að mínu áliti er það tvennt. Í fyrsta lagi lækkun raforkuverðs til garðyrkjunnar. Þannig mundu starfsskilyrði til bænda batna til muna. Þeir gætu aukið framleiðsluna og væru þá betur í stakk búnir til að taka á móti aukinni samkeppni og lægri tollum á grænmeti, sem hlýtur að koma til álita, enda er það til hagsbóta fyrir neytendur og eðlilega þróun í garðyrkju. Raforkuverðið er því í raun upphaf og endir alls í þessu máli.