2001-04-04 15:49:10# 126. lþ. 106.95 fundur 453#B viðbrögð stjórnvalda við áliti samkeppnisráðs um ólögmætt samráð á grænmetismarkaði# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég var hissa á að heyra það í upphafi ræðu hæstv. landbrh. er hann talaði um gífuryrði og stóryrði. Þegar hann nefnir hér gífuryrði og stóryrði þá dettur manni auðvitað enginn annar ráðherra í hug en hæstv. forsrh. En í þetta skipti var hæstv. landbrh. með gífuryrði og stóryrði í garð formanns Samfylkingarinnar (Landbrh.: Hver voru þau?) sem kom hér með mjög skynsamlegar (Landbrh.: Hver voru stóryrðin?) spurningar í beinu framhaldi af þeirri skýrslu sem skilað hefur verið, um samkeppnisstöðu garðyrkjunnar í landinu. Í stað þess að einbeita sér að því að svara þeim einföldu spurningum þarna voru bornar fram fór töluverður tími í þetta hjá hæstv. landbrh.

Skipting á neytendaverði sem talað er um í þessari skýrslu er þannig að framleiðendurnir hafa frá 1995 ekki fengið meira í sinn hlut en fyrir þann tíma. Tollarnir hafa lækkað eins og lög bjóða. Það eru staðreyndir. Hins vegar bjuggust menn við því að verndartollarnir mundu lækka hraðar en þeir hafa gert en tíminn yrði notaður til þess að skoða rekstrargrundvöll garðyrkjunnar. Það er það sem formaður Samfylkingarinnar sagði hér áðan. Sá tími hefur ekki verið notaður. Hann hefur ekki verið notaður til að skoða hvernig garðyrkjan hér á landi geti mætt erlendri samkeppni. Hér búa menn við allt aðrar aðstæður en eru í þeim löndum sem okkur er gert að keppa við. Allt aðrar aðstæður. Þar eru niðurgreiðslur. Þar eru grænir styrkir. Svo er ekki hér.

Þetta verða menn að fara yfir í heild sinni og svara þeim spurningum sem garðyrkjan hefur um langan tíma beint til landbrn., ekki bara síðan hæstv. núv. landbrh. tók við, heldur löngu fyrir hans tíð. Á þessu hefur ekki verið tekið. Við þurfum að skoða rekstrarskilyrði garðyrkjunnar í heild sinni, ekki bara horfa á tollalækkun eins og samkeppnisráð gerir.