2001-04-04 15:53:04# 126. lþ. 106.95 fundur 453#B viðbrögð stjórnvalda við áliti samkeppnisráðs um ólögmætt samráð á grænmetismarkaði# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Skelfilegt er þetta mál. Verðsamráð, einokunarhringar, framleiðendum komið út af markaði, einkasölusamningar og guð veit hvað. Hverjir eru fórnarlömbin, herra forseti? Það eru fyrst og fremst neytendur. En einnig garðyrkjubændur, eins og hér hefur komið fram. Við skulum ekki gleyma því að fyrirtækin, sem úrskurður samkeppnisráðs fjallar um, vinna eftir markaðslögmálunum. Þó framleiðendur eigi fulltrúa í stjórnum þeirra fyrirtækja þá eru þau ekki eiginleg hagsmunafélög bænda svo sem ljóst má vera af lestri úrskurðarins. Þar virðist sem hagsmunir verslunarinnar hafi verið í forgrunni en ekki hagsmunir hins almenna framleiðanda og alls ekki hagsmunir neytenda.

Herra forseti. Paprikuumræðan kemur upp á hverju ári og hún hefur gert það síðan verndartollar voru settir á erlenda framleiðslu. Síðast þegar hún kom upp, í mars fyrir ári, sagði hæstv. landbrh. í fjölmiðlum að hann ætlaði að leita allra leiða til að lækka verð á grænmeti. Enn býður hæstv. landbrh. okkur upp á sömu tugguna, hér í dag.

Herra forseti. Hvað hefur gerst í málunum? Á sama tíma og ráðherra sagði þetta fyrir ári lýstu Samtök garðyrkjubænda því yfir að þau væru tilbúin að halda stöðugu verði á grænmeti, enga hækkun á næstu tveimur árum. Samtök garðyrkjubænda sögðu líka að þau væru tilbúin til viðræðna við stjórnvöld um tollamálin. Hvað hefur gerst? Nú verður hæstv. landbrh. að svara því: Að hverju hefur hann átt frumkvæði í þessu máli síðan þessar yfirlýsingar voru gefnar í fyrra? Eða er það svo að hæstv. landbrh. hafi enga heildstæða stefnu í málefnum garðyrkjubænda fremur en í skógræktinni eða laxeldinu, svo dæmi séu nefnd?

Herra forseti. Ég verð að minna á að í manneldisstefnu sem Alþingi samþykkti 1989 stendur að það þurfi að taka mið af settum manneldismarkmiðum við ákvörðun tolla og skatta og hvers konar annarra opinberra aðgerða sem hafa áhrif á verðlag matvæla. Þetta hefur ekki verið gert. Manneldismarkmiðin hafa verið lögð til hliðar og engin neyslustýring verið af hálfu ráðuneytisins þrátt fyrir ítrekuð tilmæli manneldisráðs.

Herra forseti. Nú nægir ekki fyrir hæstv. ráðherra að segja bara: Obbobbobb.