2001-04-04 15:55:27# 126. lþ. 106.95 fundur 453#B viðbrögð stjórnvalda við áliti samkeppnisráðs um ólögmætt samráð á grænmetismarkaði# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:55]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Um langan aldur, gegnum marga áratugi, hefur Sjálfstfl. af einlægni reynt að styðja íslenska landbúnaðarframleiðslu eftir því sem hægt hefur verið á hverjum tíma. Hann hefur gert það af einlægni vitandi það að það væri samfélaginu til góðs.

Skýrslan sem liggur nú fyrir er heilmikið áfall fyrir þá sem hafa viljað standa svo að málum sem gert hefur verið. Sjálfstfl. hefur að sjálfsögðu oft orðið fyrir kárínum vegna þessa stuðnings. Það má sannarlega segja að gagnrýnin á ofurtollana, hátollana, eigi töluverðan rétt á sér vegna þess að hátollarnir vernda verðið og geta afvegaleitt verðið til einstaklinganna.

Það liggur fyrir að þeir sem hafa vélað um þessa sölu og þessi mál hafa svo gjörsamlega brugðist því trausti sem á þá var lagt að það er enginn stuðningur á Alþingi Íslendinga og enginn stuðningur í Sjálfstfl. til að viðhalda þessum háu tollum. Þeir verða að fara.

Eftir standa garðyrkjubændur og þeirra merkilega búgrein sem við höfum sannarlega viljað styrkja og talið rétt að styrkja. Við getum ekki látið heila búgrein líða fyrir mistök og skammsýni örfárra manna. Við verðum því að vera reiðubúin til að styðja þessa búgrein og aðferðin til þess liggur alveg fyrir. Við getum og eigum, þó það hljómi kannski ekki alltaf vel, að niðurgreiða rafmagn til bænda. Þeir hafa viljað auka framleiðslu sína. Þeir geta aukið framleiðslu sína, bæði á haustin og veturnar og bætt þannig framleiðsluna. Það er nauðsynlegt. Við verðum að bregðast þannig við og við verðum að gera það strax.