Þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 10:39:34 (6360)

2001-04-05 10:39:34# 126. lþ. 107.91 fundur 454#B þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[10:39]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram um nauðsyn þess að málefni Þjóðhagsstofnunar komi til umræðu á Alþingi. Það er, herra forseti, mjög undarleg afstaða hjá hæstv. forsrh. svo ekki sé meira sagt, að leggja á það svo mikla áherslu að ekki sé nauðsynlegt að leggja grundvallarbreytingar á stjórnsýslunni fyrir Alþingi eins og raun ber vitni varðandi málefni Þjóðhagsstofnunar. Slík framkoma ber vott um yfirgang framkvæmdarvaldsins og tilburðir til einræðisstjórnarhátta sem ekki eiga að líðast í lýðræðisríki. Sérstaklega er þetta undarlegt í ljósi þess að hinn stjórnarflokkurinn, Framsfl., virðist alls ekki hafa verið hafður með í ráðum, ekki einu sinni í bollaleggingum hæstv. forsrh.

Herra forseti. Varðandi umræður að öðru leyti hér í þinginu er það auðvitað umhugsunarefni hversu mjög það hefur færst í aukana að mál séu rædd utan dagskrár í stað þess að ræða þau í formi þingmála. Það gefur okkur tilefni til að endurskoða það verklag og fyrirkomulag sem hefur verið varðandi framlagningu þingmála og umræðu um þau. Ég vil því taka undir það að rétt sé að leitast við að ræða mál frekar í formi þingmála, en auðvitað var verklag síðustu viku viðleitni í þá átt, herra forseti, sem ég tel að hafi verið mjög af hinu góða.