Þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 10:41:06 (6361)

2001-04-05 10:41:06# 126. lþ. 107.91 fundur 454#B þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), SvH
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[10:41]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Menn eru að vísu orðnir ýmsu vanir um umgengni meiri hluta Alþingis við löggjafarsamkunduna og raunar dómsvaldið einnig. Ég ætla kannski ekki að nefna fjölmörg atriði í því sambandi, en það má nefna hvernig tekið var við hæstaréttardómnum 3. desember 1998 og síðar öryrkjadómnum sem kunnugt er. Og menn muna hvernig hæstv. forsrh. tók við Vatneyrardómnum svo að eitthvað sé nefnt. Þannig endurtekur sagan sig. Nú á að gera atrennu að stofnun sem starfar samkvæmt lögum í þjóðfélaginu.

Ég hef ekki leyfi til, herra forseti, að ræða það mál efnislega því að hér er um að ræða störf þingsins. En ég kannast ekki við það að ekki megi hliðra til, og sé stöðugt gert og hafi verið gert a.m.k. fyrr á árum, í umræðum á Alþingi um mál sem brýna nauðsyn ber til að ræða. Þetta mál er þannig vaxið að það er lífsspursmál auðvitað fyrir löggjafarsamkunduna að fá ítarlegustu upplýsingar um málið og ræða það skilmerkilega í öllum atriðum.

Það er ekkert álitamál að hér er um það að tefla að löggjafinn hlýtur að koma til skjalanna vegna þess að ella er framganga framkvæmdarvaldsins með þeim hætti sem mundi teljast með öllu ólíðanleg. Við verðum a.m.k. að fá að vita það í umræðum um málið hvaða reglur og lög standa til þess að sú framkvæmd sé möguleg sem hæstv. forsrh. tilkynnir.