Þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 10:43:14 (6362)

2001-04-05 10:43:14# 126. lþ. 107.91 fundur 454#B þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[10:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér er að sönnu ljóst að hér liggja fyrir mörg mál og bíða umræðu. Venjan er sú að þau komi í þeirri röð sem þingnúmer þeirra segja til um. Hitt þekki ég jafn vel að mýmörg fordæmi eru fyrir því að á þessu séu frávik og ákveðinn sveigjanleiki sé viðhafður um þingstörfin þegar sérstaklega stendur á og allir eru sammála um að aðstæður bjóði upp á það t.d. að veita ákveðnum málum forgang af því að þau séu svo brýn. Þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í þessu tilviki eru þá ósköp einfaldlega þessar: Vilja menn að þingmál sem liggja fyrir á þingi og fjalla um brýn málefni mæti afgangi og þetta ýti mönnum út í það að biðja sífellt um utandagskrárumræður og að eiginlega allar umræður um brýnni mál færist yfir í það far þannig að þingmálin sjálf sem menn hafa lagt vinnu í að útbúa og liggja hér fyrir og gætu verið og væru hinn eðlilegi grundvöllur umræðunnar þegar svo stendur á? Þetta er ekki æskileg þróun og það er þetta sem ég var að fara fram á að hæstv. forseti athugaði.

Um málið að öðru leyti ítreka ég óskir mínar til forseta um að séð verði til þess að þetta mál komist á dagskrá strax eftir páskaleyfi. Mér heyrast allir vera sammála um það, a.m.k. þeir sem hér hafa talað að brýnt sé að Alþingi komist sem fyrst til þess að ræða þetta mál og þá væri ekki ágreiningur um það. Í öðru lagi óska ég eftir því að forseti geri hæstv. forsrh. aðvart um það að sú krafa sé uppi á Alþingi að hann aðhafist ekkert í þessu máli fyrr en Alþingi hafi átt kost á því að ræða það. Það er óhæfa ef forsrh. ætlar að halda áfram með málið í ljósi þeirrar lögleysu sem það klárlega er að ætla að leggja þá stofnun niður í trássi við lögin sem um hana gilda og innan fjárlagaársins þar sem stofnunin hefur fullar fjárveitingar til rekstrar. Þetta eru óskir mínar til virðulegs forseta.