Breyting á XI. viðauka við EES-samninginn (fjarskiptaþjónusta)

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 10:48:32 (6365)

2001-04-05 10:48:32# 126. lþ. 107.1 fundur 638. mál: #A breyting á XI. viðauka við EES-samninginn (fjarskiptaþjónusta)# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[10:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 108/2000, um breytingu á XI. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fella inn í samninginn þrjár tilgreindar ákvarðanir framkvæmdastjórnar ESB um persónuvernd. Gerð er grein fyrir efni þessarar ákvörðunar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeim gerðum sem hér um ræðir.

Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu vegna þess að til slíkra lagabreytinga þarf að koma.

Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt EES-samningnum verða þær skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar í samræmi við 21. gr. stjórnarskrárinnar.

Sú málsmeðferð sem hér er viðhöfð, að leggja fram sérstaka þáltill., er í samræmi við tilhögun sem ég hef áður gert sérstaka grein fyrir á hv. Alþingi, en þessi meðferð ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar samsvarar best stjórnskipulegum venjum okkar við meðferð þjóðréttarsamninga auk þess sem aðkoma Alþingis að ákvarðanatöku nefndarinnar er tryggari og betri yfirsýn fæst um þróun samningsins.

Hvað varðar efnisatriði þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir nægir að meginstefnu að vísa til greinargerðar er fylgir tillögunni auk gerðanna sjálfra. Rétt er þó að geta þess að þær gerðir byggjast á tilskipun EB um persónuvernd sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn. Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, eru í samræmi við þá tilskipun. Samkvæmt tilskipuninni er heimilt að stöðva eða takmarka flutning persónuupplýsinga til ríkja utan EES-svæðisins ef vernd persónuupplýsinga er ekki fullnægjandi í viðkomandi ríkjum. Þær ákvarðanir sem hér um ræðir snúa að mati á aðstæðum í Ungverjalandi, Sviss og Bandaríkjunum en í öllum tilvikum er talið að persónuvernd sé fullnægjandi í skilningi tilskipunarinnar.

Að lokum skal nefnt að hæstv. dómsmrh. hefur lagt fram á hv. Alþingi frv. til laga um breytingar á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga til að mæta þeim skuldbindingum er hér um ræðir þannig að málið liggur fyrir hv. Alþingi í formi lagafrv.

Ég vil að lokum leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.