Breyting á IX. viðauka við EES-samninginn (fjármálaþjónusta)

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 10:56:56 (6367)

2001-04-05 10:56:56# 126. lþ. 107.3 fundur 641. mál: #A breyting á IX. viðauka við EES-samninginn (fjármálaþjónusta)# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[10:56]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er með sama hætti leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2001, um breytingu á IX. viðauka um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, og að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september 2000, um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim.

Gerð er grein fyrir efni þessarar ákvörðunar með tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal ásamt þeirri gerð sem hér um ræðir.

Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni á sínum tíma með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Hvað varðar efnisatriði þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir læt ég nægja að vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir tillögunni og gerðarinnar sjálfrar en vil þó geta þess að efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir ber að skoða í ljósi mjög örrar þróunar fjármálastarfseminnar þar sem rafeyrir skipar sífellt stærri sess og er gott merki þeirra miklu tækniframfara sem við upplifum í dag. Jafnvel eru dæmi um að stofnanir takmarki starfsemi sína í meginatriðum við útgáfu rafeyris.

Tilskipunin fjallar um rafeyrisfyrirtæki, þ.e. fjármálafyrirtæki önnur en lánastofnanir sem hafa með höndum útgáfu og umsýslu með rafeyri. Í tilskipuninni er meðal annars kveðið á um heimildir til útgáfu rafeyris, lágmarkskröfur um eigið fé rafeyrisfyrirtækis og um eftirlit og fjárfestingarstefnu slíkra fyrirtækja.

Unnið er að undirbúningi nauðsynlegra lagabreytinga vegna þessa í iðn.- og viðskrn. en sérstök nefnd sem vinnur að gerð frv. á vegum þess ráðuneytis um fjármálafyrirtæki mun gera tillögur um hvernig tilskipunin verður tekin upp í íslenskan rétt. Samkvæmt tilskipuninni er gert ráð fyrir að efni hennar komi til framkvæmda á EES-svæðinu eigi síðar en 27. apríl 2002.

Ég vil leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. utanrmn.