Breytingar á IX. viðauka við EES-samninginn (fjármálaþjónusta)

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:00:17 (6368)

2001-04-05 11:00:17# 126. lþ. 107.4 fundur 640. mál: #A breytingar á IX. viðauka við EES-samninginn (fjármálaþjónusta)# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:00]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2001 frá 30. mars 2001, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, og að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/28/EB frá 18. september 2000, um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana.

Gerð er grein fyrir tillögunni og efni þessarar ákvörðunar í fskj. með þáltill. ásamt þeirri gerð sem hér um ræðir. Þessi ákvörðun kallar eins og hinar fyrri á lagabreytingar hér á landi og hefur verið undirrituð af okkar hálfu með stjórnskipulegum fyrirvara.

Hvað varðar efnisatriðin vil ég með sama hætti vísa til greinargerðar sem fylgir tillögunni auk gerðarinnar sjálfrar. Það ber að hafa í huga þá gerð sem var til umræðu hér næst á undan. Þessi gerð tengist henni. Tilskipunin mælir fyrir um það að rafeyrisfyrirtæki skuli skilgreind sem lánastofnanir. Þetta gerir það að verkum að rafeyrisfyrirtæki getur stundað starfsemi hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu.

Með sama hætti er unnið að undirbúningi nauðsynlegra lagabreytinga vegna þessa máls í iðn.- og viðskrh. og sama nefnd og áður var getið um að vinnur að frv. um fjármálafyrirtæki mun skila áliti um hvernig þetta mál verði best fært inn í íslenskan rétt og síðan lagt fyrir hv. Alþingi.

Það er gert ráð fyrir því, með sama hætti og fyrri tilskipunin sem var hér til umræðu, að þessi tilskipun komi til framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu eigi síðar en 27. apríl árið 2002. Ég vil á sama hátt leggja til, hæstv. forseti, að þessu máli verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanrmn.