2001-04-05 11:08:28# 126. lþ. 107.7 fundur 644. mál: #A samningur um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að samþykkja fyrir Íslands hönd ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins um að koma á samningi um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins að því leyti sem ákvæði hans byggjast á Schengen-samningnum.

Samkvæmt svokölluðum Brussel-samningi um þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu hvílir sú skylda á ríkjunum tveimur að samþykkja, koma í framkvæmd og beita gerðum og ráðstöfunum Evrópusambandsins sem breyta eða bætast við þau ákvæði sem getur um í viðaukum við Brussel-samninginn. Í samningnum kemur fram að ef efni gerðar eða ráðstöfunar geti ekki orðið bindandi fyrir Ísland fyrr en stjórnskipunarskilyrði hafa verið uppfyllt skuli Ísland gera Evrópusambandinu grein fyrir því. Þegar öll stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Ísland þegar í stað gera ráðinu og framkvæmdastjórninni skriflega grein fyrir því. Í samræmi við þetta ákvæði hefur Ísland gert Evrópusambandinu grein fyrir því að Ísland geti ekki látið uppi endanlega afstöðu sína til þessa máls fyrr en stjórnskipulegum skilyrðum hefur verið fullnægt.

Sú afstaða hefur verið mótuð í utanrrn. að í þessum tilvikum skuli sams konar málsmeðferð viðhöfð og við meðferð gerða á grunni EES-samningsins sem samþykktar hafa verið með stjórnskipulegum fyrirvara. Dæmi um það eru samþykktir sem ég hef gert grein fyrir áður. Það er að mati ráðuneytisins alveg ljóst að það gilda sömu sjónarmið í báðum tilvikum og því eðlilegt að málin komi með sambærilegum hætti fyrir hv. Alþingi.

Hinn 29. maí árið 2000 var samþykktur af Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess samningur um gagnkvæma aðstoð í sakamálum. Markmið samningsins er að bæta og auka réttaraðstoð milli ríkjanna í sakamálum á þeim grundvelli sem þegar er fyrir hendi, en sú samvinna hvílir einkum á Evrópusamningi um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959, ásamt viðbótarbókun frá 17. mars 1978, og samningi frá 19. júní 1990. Þessi nýi samningur Evrópusambandsríkjanna um gagnkvæma aðstoð í sakamálum felur m.a. í sér breytingu á Schengen-reglum sem gilda á þessu sviði.

Í 2. gr. samningsins eru rakin þau ákvæði hans sem breyta eða byggja á þeim Schengen-reglum sem gilda gagnvart Íslandi og Noregi.

Frv. til breytinga á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum vegna þessa máls er þegar til meðferðar á hv. Alþingi.

Ég vil, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.