Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:12:15 (6372)

2001-04-05 11:12:15# 126. lþ. 107.8 fundur 656. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:12]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þeirri sem hér liggur fyrir er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum frá árinu 2001 sem gerðir voru í Skagen 18. október á liðnu hausti.

Á grundvelli samnings strandríkjanna fjögurra, þ.e. Íslands, Færeyja, Noregs og Rússlands frá árinu 1996 hafa þessi ríki auk Evrópusambandsins á undanförnum árum samið árlega um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Á fundi aðila í Skagen í haust náðist samkomulag um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á þessu ári. Heildarveiði var ákveðin 850 þús. lestir. Hún var 1.250 þús. lestir árið áður og því er um að ræða 400 þús. lesta samdrátt.

Þessi afli skiptist í nákvæmlega sömu hlutföllum og verið hefur á undanförnum árum. Í Íslands hlut koma 132.080 lestir, í hlut Færeyja 46.420 lestir, í hlut Evrópubandalagsins 71.260 lestir, í hlut Noregs 484.500 lestir og í hlut Rússlands 115.740 lestir.

Eins og fyrr hafa aðilar komið sér saman um frekara fyrirkomulag veiða í sérstökum tvíhliða samningum, m.a. um heimildir til veiða í lögsögu hvors annars. Þeir samningar eru með svipuðum hætti og verið hefur.

Ráðgjafarnefnd Alþjóðahafrannsóknaráðs, ICES, hafði lagt til að heildaraflinn yrði 753.000 lestir á árinu 2001, í samræmi við aflareglu sem samþykkt var að vinna eftir á fundi aðila árið 1999. Því miður náðist ekki samstaða á fundinum í Skagen um að fylgja ráðgjöfinni, sem Íslendingar lögðu mikla áherslu á, og varð að lokum samkomulag um að heildaraflinn árið 2001 yrði 850.000 lestir eða tæplega 100 þús. lesta fram yfir ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Aðilar lýstu því hins vegar yfir, og á það lögðum við mikla áherslu, að stefnt yrði að því að fylgja aflareglunni frá og með árinu 2002. Ég vænti þess að við það verði staðið þannig að þessar veiðar verði í samræmi við ráðgjöf vísindamanna og skiptir miklu máli fyrir hagsmuni allra þessara þjóða og þá ekki síst okkur Íslendinga að þessi stofn verði byggður upp þannig að hann nái fyrri stöðu og leiti með sama hætti inn í íslenska lögsögu og áður, en það er helst von til þess þegar stofninn hefur náð ákveðnu marki.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.