Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:31:21 (6379)

2001-04-05 11:31:21# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli, í fjarveru hæstv. iðnrh.- og viðskrh., fyrir frv. til laga um vexti og verðtryggingu sem er 566. mál þingsins á þskj. 872.

Frá því að vaxtalög, nr. 25/1987, gengu í gildi og almennu samningsfrelsi um aðra vexti en dráttarvexti var komið á hefur íslenski fjármagnsmarkaðurinn tekið margvíslegum breytingum. Ég vil nefna helstu breytingarnar sem hafa þar orðið:

Bankar, sparisjóðir og aðrar helstu lánastofnanir á markaði hafa tekið upp kjörvaxtakerfi útlána. Í kjörvaxtakerfi eru lántakendur flokkaðir í nokkra kjörvaxtaflokka eftir fjárhagslegum styrkleika og tryggingum sem þeir geta sett fyrir lánum. Vextir í hverjum flokki eru ákveðnir sem álag á hlutaðeigandi kjörvexti, þ.e. grunnvexti. Jafnframt hefur fjölbreytni innlánsreikninga aukist mjög mikið í samræmi við þessa þróun.

Síðustu gjaldeyrishöftin voru afnumin í árslok 1994. Þar með tengdist íslenski fjármagnsmarkaðurinn erlendum fjármagnsmörkuðum miklu sterkari og traustari böndum en áður hafði verið.

Á þessum tíma hefur hlutabréfamarkaðurinn verið efldur mjög mikið og stofnaður hefur verið gjaldeyrismarkaður.

Veruleg aukning fjárfestinga í erlendum verðbréfum hefur orðið hér á landi.

Einnig hefur komist á lánsfjáröflun ríkissjóðs með markaðsútboðum og samkomulag fjmrn. og Seðlabankans um að ríkissjóður afli sér lánsfjár á markaði en taki ekki lán hjá Seðlabankanum.

Áhersla fyrirtækja og sveitarfélaga á að afla lánsfjár með sölu skuldabréfa á verðbréfamarkaði í stað hefðbundinna bankalána hefur aukist.

Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu hafa skapast auknir möguleikar erlendra fjármálafyrirtækja til að veita þjónustu hér á landi.

Sókn innlendra lánastofnana á erlenda markaði með stofnun útibúa og skrifstofa, stofnun dótturfélaga og kaup á erlendum bönkum hefur orðið í nokkrum mæli þannig að þessi markaður hefur þroskast mjög mikið á þessum árum.

Þetta eru að sjálfsögðu gríðarlegar breytingar sem hér hafa orðið. Lagaramminn utan um þessar róttæku breytingar hefur í samræmi við það tekið mjög miklum breytingum. Þykir því vera kominn tími til að setja ný vaxtalög í samræmi við þessa þróun sem hæfa betur aðstæðum á markaðnum.

Í stuttu máli er meginefni þessa frv. eftirfarandi:

Lagt er til að ný lög um vexti og verðtryggingu komi í stað vaxtalaganna frá 1987. Vaxtalögunum hefur verið breytt sjö sinnum frá því að þau voru sett. Nefndin sem vann að gerð frv. var sammála um að ástæða væri til að breyta fjölmörgum ákvæðum vaxtalaganna, þar á meðal að fella niður kaflann um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða. Til að auðvelda umfjöllun um efnisatriði og tryggja innra samhengi og réttar tilvísanir innan margbreyttra laga taldi nefndin rétt að leggja til að sett yrðu ný heildarlög í stað laganna frá 1987.

Í frv. eru lagðar til eftirfarandi meginbreytingar á sviði vaxtamála:

Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að Seðlabankinn ákveði einhliða dráttarvexti af öllum peningakröfum verði aðilum heimilt í lánssamningum að semja um dráttarvexti upp að vissu marki. Samningsaðilar hafa samkvæmt frv. heimild til að semja um tiltekinn fastan hundraðshluta sem vanefndaálag ofan á ákveðinn grunn dráttarvaxta sem tekur mið af vöxtum algengra skammtímalána Seðlabankans til lánastofnana. Einnig geta samningsaðilar samið um fasta dráttarvexti.

Í öðru lagi er lagt til að sérregla 11. gr. gildandi vaxtalaga um dráttarvexti af peningakröfum í erlendri mynt verði afnumin og því fari um dráttarvexti af slíkum kröfum samkvæmt almennum reglum.

Í þriðja lagi er lagt til að þegar samningsaðilar tilgreina ekki vaxtafót verði miðað við vexti sem Seðlabankinn birtir. Skulu þeir taka mið af lægstu vöxtum á nýjum útlánum hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum en ekki veginni meðalársávöxtun af nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum eins og tíðkast í dag. Fyrrgreindu vextirnir eru af eðlilegum ástæðum lægri en þeir síðarnefndu. Rétt er að benda á að einungis í undantekningartilvikum reynir á þetta ákvæði vaxtalaga. Reynslan er sú að yfirleitt er einhver vaxtafótur tilgreindur ef á annað borð er áskilið að krafa beri vexti.

Í fjórða lagi er stefnt að því með frv. að hvetja aðila til að semja um ákveðna vexti sín á milli en nota ekki almennar viðmiðanir við vexti á markaðnum eins og nú tíðkast, t.d. meðalársávöxtun á nýjum almennum útlánum hjá bönkum og sparisjóðum. Þessir meðalvextir eru ýmsum annmörkum háðir. Í fyrsta lagi hefur orðið æ erfiðara fyrir Seðlabankann að velja vogir til að reikna út meðalvexti eftir því sem kjörvaxtakerfi banka og sparisjóða hefur orðið fjölbreytilegra. Í öðru lagi eru við útreikning á þessum meðalvöxtum notaðir allir vextir af skuldabréfalánum banka og sparisjóða, þ.e. lánum á lágum vöxtum til traustra aðila með góðar tryggingar og lánum á háum vöxtum til aðila með lakari tryggingar og allir vextir þar á milli. Þessir meðalvextir eru síðan notaðir í ríkum mæli í samningum manna á milli utan bankakerfisins án þess að tillit sé tekið til mismunandi aðstæðna lántakenda. Þetta getur þýtt að aðilar sem taka lán utan bankakerfisins með góðum tryggingum greiða í raun hærri vexti en eðlilegt getur talist. Einnig má finna dæmi um hið gagnstæða. Því er lagt til að í stað þess að reikna út og birta meðalvexti banka og sparisjóða sem aðilar geta notað í viðskiptum sín á milli verði Seðlabankanum falið að birta vexti sem taka mið af lægstu vöxtum nýrra útlána viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana, þ.e. þeim vöxtum sem lánastofnanir bjóða lánþegum sem þeir telja trausta, og þá bestu vexti sem lánastofnanir bjóða, sem er eðlilegasta viðmiðun á markaðnum þannig að aðilar geti gert sér betur grein fyrir því hvort þeim er veitt góð eða slæm þjónusta. Ekkert er því til fyrirstöðu að samið sé um tiltekið frávik frá þess um vöxtum eftir aðstæðum hverju sinni.

Í fimmta lagi er lagt til að fellt verði brott ákvæði vaxtalaga um að sé samið um breytilega vexti í samræmi við hæstu lögleyfða vexti eða hæstu vexti á markaðnum á hverjum tíma skuli miðað við hæstu gildandi vexti af hliðstæðum lánum sem eru í almennri notkun hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum eins og þeir eru á hverjum tíma. Fyrir þessu eru tvenn rök. Í fyrsta lagi ríkir samningsfrelsi um vexti og því engir hæstu lögleyfðu vextir til. Þessi hugtakanotkun er því í reynd ekki í samræmi við þann raunveruleika sem við okkur blasir í dag. Í öðru lagi þykir eðlilegt að hvetja aðila á markaðnum til að semja um vexti sín á milli en nota ekki almennar viðmiðanir við vexti sem lánastofnanir bjóða þegar um er að ræða áhættusama lánveitingu að þeirra mati.

Í sjötta lagi er lagt til að vextir af skaðabótakröfum verði hækkaðir frá því sem nú gildir, þ.e. úr vegnu meðaltali vaxta af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum hjá bönkum og sparisjóðum í tvo þriðju hluta þeirra vaxta sem Seðlabankinn ákveður og birtir með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum óverðtryggðum útlánum hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum. Miðað við núverandi vaxtastig mundi þessi tillaga frv. leiða til þess að vextir af skaðabótakröfum hækkuðu úr 1,4%, sem er afskaplega lágt, í u.þ.b. 9%.

Í sjöunda lagi er lagt til að fellt verði brott ákvæði um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða. Með 6. gr. laga nr. 67/1989 var bætt við vaxtalög kafla um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða, IV. kafla, 17.--19. gr. Eins og hv. þm. er kunnugt hefur starfsemi stærstu sjóðanna verið stokkuð upp með sameiningu fjögurra sjóða í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., sem nú er Íslandsbanki-FBA hf., og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Flestir fjárfestingarlánasjóðir lúta nú sömu reglum og viðskiptabankar og sparisjóðir, sbr. lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Þeir mega þó ekki taka við innlánum. Því þykir óeðlilegt að sérákvæði gildi um vaxtakjör fjárfestingarlánasjóða í ljósi þeirra miklu breytinga sem hér hafa orðið.

Í áttunda og síðasta lagi er lagt til að svokallað misneytingarákvæði vaxtalaga og ákvæði um endurgreiðslu á ofteknum vöxtum verði að mestu fellt brott. Ákvæði þessi eiga rætur sínar að rekja til þess tíma er ekki ríkti frjálsræði í samningum um vexti. Þörf fyrir ákvæðin nú þegar frelsi í samningum um vexti hefur fest sig í sessi er því lítil og þjónar litlum tilgangi. Hafa ber í huga að hið almenna misneytingarákvæði 253. gr. almennra hegningarlaga á við um samninga um vexti. Þá ber að hafa í huga að lög nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, taka jafnframt til þessara samning.

Í frv. eru ekki lagðar til meginbreytingar á stefnu stjórnvalda í verðtryggingarmálum. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að verðtryggja sparifé og lánsfé sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs og Seðlabankinn geti ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána.

Þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á verðtryggingarkafla vaxtalaga eru eftirfarandi:

1. Heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður, enda eðlilegt ef um það er að ræða að menn vilji miða við erlenda gjaldmiðla að þá sé erlendi gjaldmiðillinn notaður.

2. Tekið er af skarið um að afleiðusamningar falli ekki undir ákvæði laganna og að í skuldaskjölum sé heimilt að miða við vísitölur sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi með sama hætti og vísitala neysluverðs.

3. Seðlabankanum verður heimilt en ekki skylt að ákveða lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána eins og nú er.

4. Ákvæði 25. gr. vaxtalaga um hvað gera skuli við skuldbindingar sem tengdar eru lánskjaravísitölu verður flutt í bráðabirgðaákvæði.

5. Ákvæði 24. gr. vaxtalaga um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að setja reglur um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda er tekið út úr vaxtalögum en þess í stað sett í lög nr. 113/ 1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og lög nr. 123/1996, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Þar þykja þessi ákvæði eiga betur heima þannig að hér er ekki um efnisbreytingu að ræða.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að þessu frv. verði eðli máls samkvæmt vísað til efh.- og viðskn. að lokinni 1. umr.