Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:47:58 (6380)

2001-04-05 11:47:58# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mikill bálkur sem hæstv. utanrrh. og starfandi viðskrh. mælir hér fyrir. Hann hefur rakið átta meginbreytingar á þeim lögum sem fjalla um vexti og verðtryggingu. Það er ein tiltekin breyting sem mig langar að hefja máls á hér.

Í 6. gr. er lögð til talsvert merk breyting á dráttarvöxtum. Þar er lagt til að heimilað verði að semja um ákveðið vanefndaálag ofan á tiltekinn grunn dráttarvaxta. Að vísu eru neytendalán undanskilin. Ég spyr því hæstv. utanrrh.: Þýðir þetta ekki að allar líkur eru á því að dráttarvextir kunni í sumum tilvikum að hækka? Ég velti t.d. fyrir mér að jafnvel þó að neytendalán séu þarna undanskilin, hver verði örlög t.d. lítilla atvinnurekenda, smáfyrirtækja sem þurfa að sækja undir bankastjóra. Ég tala ekki um í því harðnandi árferði sem ríkir nú innan bankasamfélagsins. Við verðum þess vör auðvitað að það er orðið erfiðara að verða sér úti um fjármagn. Það þýðir einfaldlega að sér í lagi þeir sem eru smærri og veikari á markaðnum þurfa einfaldlega að taka þeim kostum sem þeim eru boðnir.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Telur hann ekki að hér sé verið að fara út á hæpna braut? Getur þetta ekki leitt til þess að dráttarvextir hækki? Kann þetta ekki að koma verst niður á þeim sem eru e.t.v. í erfiðastri stöðu og hafa mest þörf á því að komast að fjármagni?