Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:49:58 (6381)

2001-04-05 11:49:58# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Í flestum tilvikum hafa neytendur aðra stöðu en fyrirtæki í þessu sambandi og þess vegna verða að gilda ákveðnar reglur um það. Ég sé enga ástæðu til að ætla að með þessum breytingum muni dráttarvextir hækka. Með þessum breytingum hins vegar geta fyrirtæki samið um það í lánssamningum sínum hvaða reglur eigi að gilda ef um vanskil verður að ræða. Það er nú þannig með marga aðila að þeir hafa stöðu og tækifæri til að semja um það. Auðvitað getur það átt við um aðra tiltekna aðila í þjóðfélaginu. En ég hygg að hér sé verið að leggja til breytingar sem eru í samræmi við það sem gengur og gerist alls staðar í kringum okkur. Við lifum orðið í þessu sambandi í mjög opnu og alþjóðlegu umhverfi og því er eðlilegt að reglur okkar séu í samræmi við það sem gengur og gerist annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem ríkir fullt frelsi í þessum málum. En ég sé enga ástæðu til að ætla, herra forseti, að þetta muni sérstaklega leiða til þess að dráttarvextir hækki, heldur þvert á móti í ákveðnum tilvikum geti þeir lækkað.