Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:53:31 (6383)

2001-04-05 11:53:31# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það eigi fyrst og fremst við um öflugri fyrirtæki sem hafa samningsstöðu gagnvart bankakerfinu til að semja um mál sín. Það vill svo til að fyrirtæki fara stækkandi á almenna markaðnum á Íslandi, að sumu leyti því miður og öðru leyti sem betur fer. Hins vegar eru öll fyrirtæki á Íslandi lítil og meðalstór fyrirtæki í skilningi reglna sem gilda á alþjóðamarkaði. Ástæðan fyrir því m.a. að fyrirtæki okkar eru að stækka er til þess að þau geti orðið samkeppnishæfari á þessum alþjóðlega markaði og geti notið betri kjara, m.a. á lánamarkaðnum. Ég sé hins vegar enga ástæðu til að ætla að þetta eigi að þurfa að skaða minni aðila eins og hv. þm. gat um, þvert á móti. Ljóst er að það eru mjög opnar upplýsingar um það hvaða kjör eru á markaðnum og gæti það orðið til þess að bæta kjör hinna þannig að í ljós komi að það séu ekki bara einhverjir einir dráttarvextir sem gilda, hægt yrði að semja um það og þá munu náttúrlega allir leita leiða til að ná betri samningum.

En almennt má segja að fyrirtæki reyna náttúrlega að komast hjá því að fjármagna sig á dráttarvöxtum. Fyrirtæki sem fjármagna sig á dráttarvöxtum til lengri tíma litið fara fljótlega yfir um. Slík fjármögnun er því ekki eftirsóknarverð og ber að sjálfsögðu að reyna að koma í veg fyrir hana með öllum tiltækum ráðum. Það á líka við um almenning og neytendur. Dráttarvextir eru svo háir að það stendur ekkert heimili undir slíkum vöxtum til langframa.