Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:57:53 (6385)

2001-04-05 11:57:53# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Svarið er já. Menn treysta sér ekki til þess. Hins vegar er verið að gera þá breytingu að miða beri við vísitölu neysluverðs sem ég tel að sé til mikilla bóta. Einnig er verið að opna fyrir það að Seðlabankinn geti breytt þessum takmörkunum, sem eru í dag þrjú ár fyrir innlán og fimm ár fyrir útlán. Menn hafa verið þeirrar skoðunar á undanförnum árum að ef vísitöluheimildir yrðu algjörlega afnumdar þá lægi það nokkuð ljóst fyrir að það yrði til þess að hækka vexti. Þar af leiðandi væri það vond aðgerð við núverandi aðstæður fyrir lántakendur og neytendur.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að stefna beri að því að afnema þetta form í framtíðinni og færa það til samræmis við það sem gildir hér á mörkuðum í kringum okkur. En það má ekki verða til þess að stórhækka greiðslubyrði á fyrirtækjum og fólki sem menn hafa metið að mundi gerast. Nú er það Seðlabankinn sem kemur til með að meta það og fylgjast með því. Við verðum að sjá til um það hvernig þróunin verður í þeim efnum. Opnað er fyrir þann möguleika að breyta þessum viðmiðunum til samræmis við aðstæður á markaði. Ég vænti þess að Seðlabankinn muni fylgjast þar mjög vel með og gera þá tillögur um breytingar ef þeir telja ástæðu til þannig að fjármagnsmarkaður okkar verði líkastur því sem er í kringum okkur, enda er það eðlilegt því þessir markaðir eru algerlega opnir. En það er rétt hjá hv. þm. eins og hann spurði, að menn treysta sér ekki til þess við núverandi aðstæður af þeim ástæðum sem ég hef tilgreint.