Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 12:00:02 (6386)

2001-04-05 12:00:02# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[12:00]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að flestir sem hafa tjáð sig um þessi mál meta þau þannig að verðtryggingin og tilvist hennar þýði í raun og veru að menn treysti sér til að hafa vexti u.þ.b. 2--3% lægri en ella væri. Hins vegar er umhverfið orðið þannig og fjármagnsflutningar komnir í þann farveg að þeir eru orðnir frjálsir. Það segir sig sjálft ef bankar og lánastofnanir hér á landi verða komin það hátt með vextina, geta þeir nánast verðlagt sig út af markaðnum. Hins vegar á meðan þeir hafa þetta öryggisnet, þ.e. að þessi áhættufaktor, ef svo má að orði komast, er nánast tekinn út úr lánveitingum þannig að menn geti tryggt sig a.m.k. fyrir verðhækkunum innan lands, geta þeir leyft sér þann munað að keppa í þessu frjálsa umhverfi á þeim forsendum að þeir hafi ákveðið tryggingakerfi.

Því segi ég, virðulegi forseti, að auðvitað er þetta til mikillar hagræðingar, ekki aðeins fyrir neytendur heldur líka fyrir bankastofnanir því það er einfaldlega þannig að þetta hjálpar bankastofnunum mjög í því samkeppnisumhverfi sem nú er. Hins vegar eiga menn að velta því vandlega fyrir sér hvort stjórnvöld eigi til lengdar að vera með svona tryggingarákvæði í lögum.