Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 12:03:35 (6388)

2001-04-05 12:03:35# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[12:03]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Nú er verið að leggja fyrir þingið frv. til laga um vexti og verðtryggingu. Nauðsynlegt er að hafa einhver lög um þessi mál. Nauðsynlegt er að það sé einhver regla sem fólk geti gengið að sem vísri um það hvernig peningar eru verðlagðir og hvað fólk þarf að borga fyrir að fá lánaða peninga. Það eru til margir flokkar vaxta í bankakerfinu og útlánakerfinu öllu og misjafnt hvernig aðgang fólk hefur að því eftir aðstæðum hverju sinni. Sum fyrirtæki sem fá há lán þurfa að borga minni vexti en t.d. margir einstaklingar sem eru að reka fjölskyldu sína og heimili og jafnvel bara að kaupa sér þak yfir höfuðið eða fá lán fyrir einhverju sem nauðsynlegt er og brýn þörf á. Reyndar má í þessu samhengi geta þess að neysla og framboð á lánum í sambandi við kaup á alls konar vörum og dóti er að minni hyggju allt of mikið og þyrfti gjarnan að athuga hvernig skuldir manna geta hrannast upp á mörgum stöðum í einu.

Í ágætum sjónvarpsþætti á einhverri sjónvarpsstöðvanna gerði ungt fólk sér það að leik að fara niður í bæ í Reykjavík og athuga hve mikið það gæti skuldsett sig á einum degi. Þau gátu það með hægum leik, ungt fólk, 18 ára gamalt, gat skuldsett sig upp á 3 millj. kr. án þess að miklar eða nokkrar ábyrgðir væru þar á bak við. Þetta lýsir svolítið alvarleika ástandsins í peningakerfinu hér á Íslandi og kemur náttúrlega inn á svo margt um það hvernig fólk ætlar að haga neyslu sinni í lífinu og tilverunni. Það mætti gjarnan taka það meira inn í námsefni í skólum að gera ungu fólki grein fyrir því hversu vaxtaokrið er mikið og verðbótaþátturinn getur leitt til mikilla vandræða og jafnvel þjáninga hjá fólki, að maður tali ekki um í sumum tilvikum þegar ábyrgðarfólk er fengið til að skrifa upp á lánin eða hús eru sett að veði sem er þó kannski skárra.

Það er eitt sem má velta fyrir sér í þessari umræðu, herra forseti. Það eru ekki margir bankar á Íslandi, en það er verið að tala um samkeppni á markaðnum og að ekki sé alveg sama hvar menn leggja inn peningana því að sumir bankar veiti meiri og hærri vexti en aðrir. En ég hef ekki séð sjálfur að mikill munur sé á því sem er í boði og að samkeppnin sé í sjálfu sér svo mikil. Fólk greiðir háa vexti af lánum sínum og verðbætur og þegar hugsað er um þessi mál held ég að bankarnir séu ekki í miklu áliti hjá almenningi.

Auðvitað vil ég taka fram að sá sem tekur lán þarf að íhuga vel og alvarlega áður en hann tekur lánið hvaða skilmálar eru fyrir því ef ekki ber algjöra og brýna nauðsyn til að taka lánið. Menn eiga náttúrlega alltaf að athuga þessi skilyrði en stundum eru menn hreinlega tilneyddir. Það var það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að tala um áðan í sambandi við dráttarvextina að stundum er fólk undir afarkostum þeirra sem lána.

Ríkisstjórn Íslands og hæstv. forsrh. og utanrrh. segja hvað eftir annað og má á máli þeirra skilja að ástand efnahagsmála á Íslandi sé mjög gott og að hér séu góðar horfur og að við getum unað glöð við okkar hér. Þess vegna undrast ég, herra forseti, að ákvæði skuli vera í þessu frv. um svokallaða verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Hvers vegna þarf að vera með sérstaka verðtryggingu þegar efnahagsástandið er eins rosalega gott og menn halda hér fram? Er ekki krónan styrk? Er ekki krónan örugg? Er hún ekki sem gull? Er ekki verið að tala þannig hvað eftir annað hér úr þessum ræðustól að horfurnar séu góðar og fínar? En samt kemur sérstakur kafli í frv. til laga um vexti en þá heitir þetta líka frv. til laga um vexti og verðbætur. Þurfum við að tryggja krónuna með sérstökum lagaákvæðum þegar ástandið er svona gott?

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að undanfarin sex eða sjö ár hefur verið lagt fram þing eftir þing frv. til laga um afnám verðtrygginga af hv. alþm. úr öllum stjórnmálaflokkum, held ég. Samt sem áður kemur ákvæði í frv. þessu um verðtryggingu. Mig undrar það, ég verð að segja það, svo ég noti setningu sem einn frægur stjórnmálamaður notaði oft, fyrrv. hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson. Hann tjáði sig oft um það að þegar verðbólgan væri komin niður fyrir 10% á Íslandi gætum við lagt niður verðtrygginguna. Ef við förum yfir sögu efnahagsástandsins og efnahagsástands heimilanna undanfarin ár, förum allt til hinna erfiðu verðbólguára þegar verðtryggingunni var skellt á sem varð varð til þess að fjöldinn allur af heimilum í landinu komst á vonarvöl og mörg smá fyrirtæki áttu í mjög miklum erfiðleikum og sum fóru jafnvel á höfuðið.

Herra forseti. Ég er hissa á því að ekki skuli í greinargerðinni farið nánar út í umræðuna um þetta verðtryggingarákvæði, á þeirri forsendu sem ég nefndi áðan, þegar menn tala um að stöðugleikinn sé hér ágætur og að krónan standi vel og allt sé í góðum málum. Við munum eftir því þegar fólk tók kannski 150 þús. kr. lán árið 1981 og tveimur árum síðar var það komið upp í mörg hundruð þúsund. Svo segja menn: Þetta er allt í lagi vegna þess að fólkið er aðeins að borga það sem það fékk. Þetta má túlka sem rétt á margan hátt en það fer eftir því hvaða verð við leggjum á krónuna. Hvað kostar ein króna og hvernig á verð krónunnar að vera mælt? Hér er það lagt til að það fari eftir neysluverði.

En ég spyr hæstv. utanrrh.: Eigum við að verðleggja krónu okkar eftir því t.d. hvað grænmeti kostar hér í dag? Er það grænmetisverðið sem á að ákveða verðlagið á krónunni? Er það fiskverðið? Er það verðið á fiskinum sem fólk er að kaupa dýrum dómum út úr verslunum? Er það það sem á að ráða því hversu húsnæðislánin hækka hjá fátæku verkafólki? Þegar talað er um verðtryggingu þá held ég að menn verði að taka mið af því hverjar tekjur fólksins eru. Ef efnahagsástandið er í mjög góðum málum og allt er í lagi, þá þurfum við ekki að vera með þetta ákvæði. Fyrst verðbólgan er komin niður fyrir 10% minni ég á orð fyrrv. hæstv. forsrh., Steingríms Hermannssonar, sem sagði að það ætti að vera hægt að taka verðtrygginguna af þegar verðbólgan væri komin niður fyrir 10%.

Nei, inn í þessi ákvæði um verðtrygginguna verða að koma a.m.k. einhverjar reglur um að hún geti ekki farið algjörlega úr böndunum eins og hún gerði á ákveðnu tímabili í sögu okkar. Það eru margir sem eru enn þá að súpa seyðið af því.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að í 13. gr. VI. kafla, sem ber heitið Verðtrygging sparifjár og lánsfjár, þar sem stendur: ,,Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar.`` Þetta ber svolítinn keim af ótta. Þetta er ótti þess manns sem á peninga við að týna og tapa þeim. Það er áhætta að vera eigandi fjár ef menn hugsa þannig að það séu hin helstu gæði veraldar, það er alveg sama hvað menn reyna að gæta fjárins, passa að þeir tapi ekki sínu og hafi stöðugar áhyggjur af því að vakna til nýs dags þannig að þeir hafi ekki tapað peningunum sínum. Þetta er það sem mér finnst skína hér í gegn. Auðvitað reyna menn að glata ekki því sem þeir eiga. En verðtryggingarákvæðin eiga ekki að vera slík að þau geti leitt til þess að annað fólk lendi á vonarvöl og verðtryggingarákvæðin verði bara hreinlega bisness, eins og sagt er í ensku máli og í útlöndum.

Nei, ég hefði gjarnan viljað sjá í þessum kafla, Verðtrygging sparifjár og lánsfjár, ákvæði um að verðtryggingin geti ekki farið upp fyrir einhver ákveðin mörk, að ekki sé hægt að segja við mann sem er kannski með 100 kr. á tímann og hann tekur 100 kr. lán, að allt í einu eftir eitt ár þurfi hann að borga 200 kr. á meðan hann er enn þá með 100 kr. á tímann. Er þetta réttlæti af því að grænmetið hefur kannski hækkað svo mikið eða fiskurinn eða brennivínið eða tóbakið? Eða jafnvel annað sem er nú helgara, skírnir eða fermingar eða brúðkaup? Þetta er allt saman inni í neysluvísitölunni.

Herra forseti. Ég tel mig hafa vakið athygli á þessu ákvæði um verðtrygginguna í frv. til laga sem verið er að leggja fram. Ég legg til í raun og veru að VI. kaflinn verði tekinn í burt og að þeir sem eigi peninga verði bara að hafa áhyggjur af því að eiga peninga og hinir sem fá lán taki þau á sanngjörnum vöxtum og að þeir borgi lán sín eftir því sem rétt og sanngjarnt er, en ekki eins og verið hefur hér á landi, sérstaklega fyrir 10--15 árum.