Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 12:18:23 (6389)

2001-04-05 12:18:23# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[12:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er sammála þeim boðskap síðasta ræðumanns að þeir sem sækjast eftir því að sanka að sér verðmætum sem mölur og ryð fá grandað verða auðvitað bara að lifa við það og taka þá áhættu. Það á ekki af hálfu löggjafans eða stjórnvalda að láta slík verðmæti eða fyrirbæri í mannlegri tilveru hafa forgang og forréttindi umfram annað. Mér hefur alla tíð þótt heldur ónotalegt t.d. að fyrirkomulag væri með þeim hætti að kaldir fjármunir væru betur tryggðir og tækju minni áhættu heldur en almenningur í gegnum lífskjör sín, launakjör o.s.frv. Ég ætla mér að koma aðeins inn á þessi verðtryggingarákvæði á eftir.

Fyrst vil ég segja, herra forseti, um vaxtahluta þessa frv., þ.e. lagaákvæði um vexti, að þarna eru kannski ekki á ferðinni grundvallarbreytingar sem hægt er að kalla svo, a.m.k. ekki ef borið er saman við þær miklu kerfisbreytingar sem urðu á 9. áratugnum og frægar eru. Þó er það óneitanlega nokkur breyting að horfið verði frá því að Seðlabankinn ákveði dráttarvexti. Það er ástæða til að ræða það mál og hefði hæstv. ráðherra gjarnan mátt fara aðeins betur yfir það í ljósi þeirrar stöðu sem hér er á fjármagnsmarkaði og þess vaxtastigs sem hér er sem er auðvitað óheyrilegt. Í grg. með frv. þar sem sagan er lítillega rifjuð upp kemur fram að einn angi breytinganna sem urðu á 9. áratugnum var sá að lög um okur voru felld úr gildi. Þá höfðu um áralangt bil verið við lýði ákvæði sem bönnuðu okur, þ.e. óhóflegt okur á fjármagni og að menn misnotuðu aðstöðu sína til þess að þvinga af mönnum óeðlilega mikla vexti eða tækju vexti sem væru umfram lögleyfða vexti.

Nú á reyndar að einhverju leyti að fullkomna þetta verk því í frv. felst að misneytingarákvæði vaxtalaga, þau sem eftir standa þar, eru að mestu leyti felld niður. Það er nú svo að einstaka manni hefur orðið hugsað til okurlaganna á nýjan leik síðustu missirin þegar vaxtastigið hefur rokið upp úr öllu valdi eins og raun ber vitni. Ég veit ekki, herra forseti, hvort menn eru allir með það á takteinum hvernig vextirnir eru. Hverjir eru t.d. dráttarvextirnir sem við erum að ræða um og velta fyrir okkur hvort gætu eitthvað lækkað? Þeir hafa síðasta árið, herra forseti, talið frá sömu mánuðum í fyrra verið á rólinu svona frá 21,5% og upp í 24%. Þetta er náttúrlega óheyrileg vaxtataka. Vextir á almennum skuldabréfum, almennum óverðtryggðum skuldabréfum hafa á sama tíma verið á bilinu 16% og upp í 18% og yfir 18% (Gripið fram í: Verðbólgan 4%.) Verðbólgan er um 4--5%. Við erum að tala um raunvexti, herra forseti, upp á 13--15% af almennum skuldabréfum. Hvað á þetta að þýða? Hvers konar okur er þetta? 20% raunvextir á dráttarvöxtum og yfirdráttarvextir t.d. eru á svipuðu róli.

Vísitölubundin lán, hin verðtryggðu lán, þar tekur nú kannski steininn úr, herra forseti, þegar litið er á vaxtastigið á vísitölubundnum lánum, lánum þar sem lánveitandinn er algerlega varinn fyrir allri áhættu í formi verðlagsbreytinga. Vextir á vísitölubundnum skuldabréfalánum hafa verið á bilinu 9--10,2% á síðustu mánuðum. Það hlýtur að teljast ansi vel í lagt vegna þess að þar er áhættan auðvitað langtum minni og menn í skjóli af því að þeir eru í raun og veru tryggðir með lögum gagnvart því að fjárhæðirnar rýrni ekki vegna verðlagsbreytinga.

Herra forseti. Þetta vildi ég nefna hér og má vissulega spyrja hvort okkur hafi að öllu leyti gefist vel að ganga jafnlangt í þessum efnum og raun ber vitni. Ég er ekki að gerast talsmaður þess, enda um gjörbreyttar aðstæður á allan hátt að ræða og voru fyrir 10--20 árum, að menn hverfi aftur til einhverra slíkra hluta. En fyrr má nú rota en dauðrota gæti átt við hér. Spurningin er sú hvort það séu að öllu leyti markaðslegar forsendur fyrir því hreinlega í ljósi þessa vaxtastigs og vaxtamunar að hafa engin viðmiðunarmörk eða leiðsögn af neinu tagi. Maður getur þar af leiðandi spurt: Er það endilega skref í rétta átt að hverfa t.d. frá því að Seðlabankinn haldi þó þeim þætti mála áfram á sinni könnu að ákveða dráttarvextina? Og er einhver trygging fyrir því að það fari ekki á sömu leið, að það verði fyrst og fremst til þess að hækka, a.m.k. hjá þeim sem síst mega við því.

Um verðtryggingarákvæðin, herra forseti, ætlaði ég líka að ræða. Reyndar var komið inn á það af ræðumönnum á undan mér þannig að ég get að sumu leyti vísað til þess. Það sem ég staldra við hvað varðar efni frv. sérstaklega í því sambandi er sú breyting að Seðlabankinn hætti að ákveða lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna á lán eins og þetta hefur verið að undanförnu og þessu verði breytt yfir í að Seðlabankanum sé það heimilt. Ég spyr um rökin fyrir þeirri breytingu. Er það hugsun manna að þessi viðmiðunarmörk verði þá jafnvel felld niður? Og til hvers leiðir það? Jú, það leiðir til þess að menn geta farið aftur að verðtryggja fjárskuldbindingar til skemmri tíma en nú er, því þetta ákvæði eins og það er í lögunum verkar þannig að óheimilt er að verðtryggja innlán til skemmri tíma en þriggja ára og útlán til skemmri tíma en fimm ára. Þessu ákvæði hefur verið beitt eða því var beitt á árunum upp úr 1990 þegar verðbólgan náðist niður til þess að reyna að byrja að bakka verðtryggingunni út. Ég man þá tíð og væntanlega við báðir, ég og hæstv. utanrrh., að á ákveðnu tímabili á árunum 1990 og 1991 var þeim mörkum markvisst í áföngum bakkað úr hálfu eða einu ári fyrst eða hvað það nú var og upp í þau mörk sem hafa verið núna um skeið.

Ég ætla a.m.k. að vona að það sé ekki hugsunin á bak við þetta að færa það úr skyldu yfir í heimild, að til þess gæti jafnvel komið að þessi mörk yrðu bara tekin burtu. Ja, það hlýtur eiginlega að vera sú hugsun á bak við því annars er engin ástæða til að ganga frá þessu svona í lagatextanum. Og þá verð ég að segja, herra forseti, að ég hef miklar efasemdir um það. Ég hafði satt best að segja bundið vonir við að þó menn heyktust á því að fara í róttækari aðgerðir til þess að reyna að ná út verðtryggingu eins og menn hafa mikið talað um á undanförnum árum, þá gætu menn þó a.m.k. skoðað þann möguleika að halda áfram að færa upp þessi mörk, þannig að lán og innstæður til skemmri tíma yrðu þá ekki verðtryggð og þetta þróaðist í þá átt að eingöngu langtímaskuldbindingar eins og skuldabréf til 10, 15, 25 ára eða þar yfir, í húsnæðislánakerfinu og annars staðar, væru verðtryggð.

Það er rétt sem hérna var rifjað upp af síðasta ræðumanni að á árunum þegar verðbólgan var að nást niður voru menn með miklar væntingar um að það mundi reynast kleift í kjölfarið að taka tiltölulega hratt út af íslenska fjármálamarkaðnum þessa miklu verðtryggingu fjárskuldbindinga, fyrst og fremst útlána sem þar hefur verið við lýði. Af hverju voru menn með þessar væntingar, herra forseti? Af hverju ætli það hafi verið? Jú, það var af því að menn voru brenndir. Menn voru brenndir af þeim erfiðu árum sem tengdust misgengi milli fjárskuldbindinga og kaupgjalds og fór mjög illa með þúsundir fjölskyldna í landinu. Menn sáu hversu ósanngjarnt fyrirkomulag það var að fjármagnið væri í gegnum algera verðtryggingu með allt sitt á þurru á sama tíma og almenningur tæki alla áhættuna, og annars konar fjárfestingar væru sem sagt óvarðar að þessu leyti.

Hvers vegna ætti það að vera þannig að t.d. stærsta fjárfesting venjulegra fjölskyldna og eign þeirra í einhverjum mæli á móti þeim fjárskuldbindingum sem menn síðan hafa, fasteign og húsnæði, sé alveg óvarin fyrir sveiflum á markaði á sama tíma og lánin til að kaupa þá sömu fasteign eru verðtryggð í bak og fyrir?

Ég heyrði auðvitað hæstv. ráðherra lýsa áhyggjum manna af því að þetta mundi leiða af sér hærri vexti. Og sjálfsagt gætu menn bætt við að aðrir hefðu af því áhyggjur að þetta mundi leiða af sér minni sparnað og guð má vita hvað. Menn hafa sem sagt notað efasemdarökin og hræðsluna, úrtölurnar, til að gera í rauninni ekki neitt að marki í þessum málum nú um langt árabil.

En staðreyndin er sú að íslenski peningamarkaðurinn, fjármálaheimurinn, sker sig alveg úr hvað þessa víðtæku verðtryggingu útlána varðar. Þetta er að vísu þekkt í ýmsum nálægum löndum sem einhverjir afmarkaðir lánaflokkar í skuldabréfaútboðum, ríkisskuldabréfaútboðum og að einhverju leyti kannski í húsnæðislánun. Það er þó í hverfandi mæli borið saman við það sem hér er þar sem allir meiri háttar flokkar útlána til lengri tíma, húsbréfin, ríkisskuldabréfin, sérlán lífeyrissjóða til félagsmanna sinna og lengri lán í bankakerfinu eftir því sem þau eru í boði --- það er upp og ofan hvað bankarnir hafa áhuga á að lána þannig út --- eru verðtryggð í hólf og gólf.

[12:30]

Hættan í kerfinu er tvíþætt. Ókostirnir við þessa miklu verðtryggingu, fyrir utan hin siðferðilegu álitamál þar, hvort fjármagnið eigi með þessum hætti að hafa þennan forgang, eru aðallega af tvennum toga. Sá fyrri tengist misvæginu milli þess að miklu stærri hluti útlána og skulda manna er verðtryggður en eigna þeirra eða peningalegra eigna. Það er mjög gjarnan þannig að útlán eða lán sem menn hafa tekið, t.d. til húsnæðiskaupa, bílakaupa eða hvað það nú er, eru öll sömul verðtryggð. Á móti því eiga menn, skulum við vænta, einhverjar peningalegar eignir og einhverjar aðrar eignir sem eru að langmestu leyti oftast óverðtryggðar og þar með óvarðar fyrir sveiflum.

Þetta misgengi getur komið mjög harkalega niður á mönnum þegar hlutföllin milli verðtryggðra útlána annars vegar og verðtryggðra peningalegra eigna hins vegar eru mjög skökk og það þarf ekkert að velta því mikið fyrir sér hvers vegna. Hin meginástæðan er náttúrlega svo viðvarandi hætta á að misgengi skapist sem stafi af því að skuldbindingar manna og lán séu öll verðtryggð og hækki þá, rjúki af stað, eins og ég veit að margir fundu fyrir í þeim verðbólgukúfi sem gekk yfir núna á liðnu ári til einu og hálfu ári þegar verðbólga fór upp undir 6% og menn fóru strax að taka eftir því að verðtryggð lán lækkuðu ekki í krónum talið heldur hækkuðu þrátt fyrir jafnvel talsverðar afborganir. Það þarf ekki nema lán til fimmtán ára tíma eða svo með reglubundnum afborgunum þegar verðbólga fer upp í þetta sem hún komst hæst núna á síðustu missirum til að menn sjái uppreiknaðan höfuðstól lánanna í krónum talið fara hækkandi þrátt fyrir afborganir. Á sama tíma geta þá aftur orðið áföll á hina hliðina, kaup lækkað eða a.m.k. ekki haldið kaupmætti sínum o.s.frv.

Það er mikið umhugsunarefni, herra forseti, að þrátt fyrir tíu ár, að nú séu sem betur fer tíu ár liðin og rúmlega það frá því að komið var hér böndum á verðbólguna í tíð vinstri stjórnar 1988--1991 með þjóðarsátt og samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, sem gleymist að vísu oft þegar menn monta sig af eigin afrekum í seinni tíð og telja sig hafa gjört allt hið góða en aðrir allt hið slæma. Fer þar auðvitað fyrir hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, sem eignar sér gjarnan allt sem vel gengur og betur fer en kennir öðrum um, þá er það staðreynd engu að síður að það var einmitt á árinu 1990 sem sáust í fyrsta skipti verðbólgutölur hér um langt árabil sem mældust í eins stafs tölu. Þá var þessi bjartsýni uppi að menn gætu jafnvel eftir sex mánuði farið að afnema verðtryggingu í kjölfar þess að verðstöðugleiki hefði komist inn fyrir þessi mörk um hálfs árs skeið eða svo.

Síðan eru liðin tíu ár og verðbólga hefur lengst af þessum tíma verið einhvers staðar á bilinu svona frá 1%, alveg niður undir 1--1,5%, þegar minnst hefur verið á ársgrundvelli, og upp í 3, 4, 5%. En það hefur ekki meira gerst en þetta sem raun ber vitni. Hér birtist í þessu frv. hæstv. ríkisstjórnar algjör uppgjöf gagnvart því að boða nokkrar frekari breytingar í þessa átt. Og ef eitthvað er, jafnvel frekar að gera gælur við þróun í gagnstæða átt.

Þetta er nokkurt umhugsunarefni, herra forseti, og ekki alveg í samræmi við það að allt sé hér í þvílíku prýðislagi eins og landsfeðurnir vilja vera láta og með reglubundnum hætti gefa út tilskipanir um að sé. En það hefur eins og kunnugt er, herra forseti, verið eitt aðalsmerki hagstjórnarinnar upp á síðkastið að með nokkurra mánaða millibili og jafnvel skemmra millibili, ef þörf krefur, er gefin út tilskipun frá yfirvaldinu um að hér sé allt í lagi. Það hafa menn stundum kallað Egilsstaðasamþykktir samanber það er menn komu saman austur á Héraði um miðja síðustu öld og samþykktu að ríkissjóður skyldi vera skuldlaus hvað sem öðru liði. Í raun hefur þetta verið þannig, að hæstv. forsrh. hefur með reglubundnu millibili sent út slíkar Egilsstaðasamþykktir um að allt væri í fína lagi í efnahagsmálum. (Gripið fram í.)

Hvernig stendur þá á því að svo kemur frv. sem lætur ekki mikið yfir sér og er ekki verið að auglýsa beint upp með viðamikilli framsöguræðu? En í því er í raun og veru fólgin algjör uppgjöf gagnvart því að halda áfram að reyna þó a.m.k. að þoka þessum málum í átt til þess sem menn hafa talið að væri þá heppilegra, gefið að menn væru búnir að ná sæmilegum tökum á hagstjórn og verðlagsmálum. Ekki er þetta heldur í góðu samræmi við nýtt frv. til laga um Seðlabanka Íslands, herra forseti, sem verður væntanlega rætt á morgun. Hvert er megininntak þess frv.? Hver er meginstefnubreytingin þar? Jú, hún er að höfuðmarkmið, meginmarkmið peningamálastjórnar Seðlabankans skuli vera eitt og aðeins eitt og það er stöðugt verðlag.

Er þá ekki í lagi að fara að taka eitthvað út þær verðtryggingargirðingar sem liggja þvers og kruss í gegnum samfélagið? En það virðist ekki vera. Ég verð að segja, herra forseti, að ég sakna þess að um þetta skuli þá ekki vera meira rætt og þá stefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur uppi í þessum efnum, ef einhver er. Ég boða fyrir mitt leyti að ég hefði áhuga á því að ræða þetta t.d. við 2. umr. þessa máls, ef það fer lengra á þessu vori, og mundi þá gjarnan vilja að hæstv. forsrh. og yfirmaður efnahagsmála yrði við og svaraði fyrir það hver sé eiginlega hugsun hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum. Er hún sú uppgjöf sem frv. boðar eða eitthvað annað?