Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 12:43:35 (6393)

2001-04-05 12:43:35# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[12:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilega komið við kaunin á hv. þm. Það er greinilega komið við veikan blett í hjarta hv. þm. Péturs H. Blöndals þegar maður leyfir sér að taka til umfjöllunar á yfirvegaðan hátt hvort ástæða sé til að gulltryggja þannig fjármagnið í samfélaginu í bak og fyrir að þeir sem eiga peningana taki enga áhættu en almenningur, launafólk og fyrirtækin (Gripið fram í.) verði hins vegar að sætta sig við þá áhættu sem þessu kerfi er samfara. (PHB: Almenningur á peningana.) Hér kemur upp harðsnúinn talsmaður peningaaflanna í þjóðfélaginu og hneykslast á því að maður skuli leyfa sér að velta upp spurningunni: Er ástæða til að viðhalda verðtryggingunni, þessu almannatryggingakerfi fjármagnsins sem menn hafa komið upp þegar þó er búið að ná þeim tökum á verðlagsþróun í landinu sem raun ber vitni?

Staðreyndin er líka sú, þó að alltaf sé talað um sparifé almennings og reynt er að telja mönnum trú um að þetta séu að uppistöðunni til eldri konur sem eigi allt spariféð (PHB: Bændur.) og menn séu vondir. Og bændur, fátækasta stétt landsins. Hún á líklega obbann af sparifénu í landinu. Það gengur vel upp hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal.

En auðvitað er það ekki þannig. Auðvitað eru þetta ekki fyrst og fremst eldri konur og bændur sem hv. þm. Pétur H. Blöndal er að hugsa um. Hann er hugsa um fjármagnseigendurna, stórkapítalistana (PHB: Þeir skulda.) í landinu og enga aðra. Það er ágætt að hv. þingmaður komi hér undan gærunni og tali eins og hjartað býður honum. Það er alveg skínandi gott og ég fagna því og frábið mér að það sé fólgið í því nokkurt ábyrgðarleysi eða eitthvað sem mundi setja allt í kaldakol í þjóðfélaginu þó að menn velti fyrir sér hvort þær víðtæku verðtryggingar, þetta almannatryggingakerfi fjármagnsins, sem hv. þm. er greinilega mikill áhugamaður um, snúi að fjármagninu í landinu eða fólki eða öryggi.