Sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 13:52:27 (6400)

2001-04-05 13:52:27# 126. lþ. 107.94 fundur 457#B sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ekki stoðar að neita því að sjávarútvegsstefnan hefur afgerandi áhrif á aðstæður og framtíðarmöguleika byggðarlaga við sjávarsíðuna. Áhrifin eru náttúrlega þeim mun meiri eftir því sem byggðarlögin eru smærri, atvinnulíf þar einhæfara og þau meira háð sjávarútvegi einum saman. Þessu valda þau áföll sem orðið hafa í atvinnulífi einstakra byggðarlaga. Það er eins og gengur mismunandi hversu vel mönnum hefur vegnað í þeim efnum en mjög víða hafa eins og menn þekkja orðið áföll og sjaldnast liðið svo vetur á undanförnum árum að ekki hafi eitt til fjögur byggðarlög verið í uppnámi með mál sín vegna áfalla í sjávarútvegi.

Þessu veldur líka sú undirliggjandi óvissa og það öryggisleysi sem sú staðreynd skapar mönnum að vita aldrei hver er næstur í röðinni og geta átt von á því að á einni nóttu hverfi grundvöllur atvinnulífs í viðkomandi byggðarlagi á braut.

Ofan af þessu verður að vinda. Reynslan síðustu 10 ár ætti að færa mönnum heim sanninn um að framtíð minni sjávarútvegsbyggðarlaga hringinn í kringum landið er ekki björt ef ekki verður breytt þarna um kúrs. Ofan af þessu kerfi verður að vinda og tengja á nýjan leik einhvern grundvallaratvinnurétt við þessi byggðarlög. Það er eina varanlega lausnin á þessum vanda.

Ekki er undarlegt, herra forseti, þó gangi illa í minni sjávarbyggðum með bakland í sveitunum þar sem einnig hefur verið mikill samdráttur og það hrun í almannaþjónustu út um landið sem við stöndum frammi fyrir. Það er mjög bagalegt, herra forseti, að endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar skuli ganga svo hægt sem raun ber vitni og þar þarf heldur betur að fara að slá í merina ef menn ætla sér að reyna að efna það að skila einhverjum vexti í höfn á þessu kjörtímabili.