Sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 13:54:51 (6401)

2001-04-05 13:54:51# 126. lþ. 107.94 fundur 457#B sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé markmið okkar flestra að Ísland verði í fremstu röð hvað lífskjör varðar. Við höfum hingað til talið að alþjóðlega samkeppnishæfur sjávarútvegur væri eitt af lykilatriðunum til þess. Til þess að byggja upp alþjóðlega samkeppnishæfan atvinnuveg þarf að vera samkeppni milli fyrirtækja í þeirri grein sem þýðir líka að það verður samkeppni milli þeirra byggðarlaga sem byggja á þeirri atvinnugrein. Það er verkefni stjórnenda í sjávarútvegsfyrirtækjunum að rísa undir kröfum fólks um bætt lífskjör og stjórnendur fyrirtækja hafa sannarlega verið að rísa undir þessum kröfum og fært landsmönnum 25% kaupmáttaraukningu á fimm ára tímabili, 1995--2000. Fyrirtæki sem rísa ekki undir þessum kröfum líða undir lok, þau missa starfsfólk sitt og fá ekki fjármagn. Ekki er hægt að vernda byggðir með því að hamla gegn framförum og afnema samkeppni í helstu atvinnugreinum viðkomandi byggða. Frjálst framsal er einn af mörgum þáttum sem skapa virka samkeppni innan sjávarútvegsins og verkefni okkar sem stjórnmálamanna er að tryggja að þeir sem vinna í sjávarútvegi hafi samkeppnishæf lífskjör og byggja upp ný tækifæri til atvinnu þegar störfum fækkar í sjávarútvegi eins og óhjákvæmilegt er.