Sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 13:58:52 (6403)

2001-04-05 13:58:52# 126. lþ. 107.94 fundur 457#B sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. þm. Karl V. Matthíasson talaði um réttlætið og hann talaði um það að frv. Samfylkingarinnar væri frv. réttlætisins. (VE: Hann er prestur.) Það er rétt, hv. þm., hann er prestur. Þess vegna hefur hann kannski meiri rétt á að tala um réttlætið en við hin. (Gripið fram í.) En ég er hins vegar sannfærður um að réttlætið er ekki að finna í frv. Samfylkingarinnar. Sérstaklega ekki ef á að úthluta því réttlæti til byggðanna því að í uppboði á aflaheimildum er ég hræddur um að hinar smærri byggðir færu halloka.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson hafði einnig áhyggjur af því að það gæti hent að eitt fyrirtæki réði yfir öllum aflaheimildunum. Ég get hins vegar huggað hann með því að takmarkanir eru á því í lögum um stjórn fiskveiða hvað hvert fyrirtæki má eiga mikið af heildaraflanum eða heildaraflamarkinu og eins eftir hinum ýmsu tegundum og það eitt útilokar það að eitt fyrirtæki geti átt allar aflaheimildirnar. (Gripið fram í.) Ég er hins vegar sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og sagði það reyndar hér áðan að sjávarútvegsstefnan sem hefur verið rekin undanfarin ár og þær breytingar sem hafa verið gerðar hafa haft áhrif á byggðirnar. Við höfum hins vegar líka reynt að tengja ákveðinn hluta flotans við byggðirnar gegnum smábátaflotann sem vegna stærðar og veiðarfæra tengist byggðunum meira en aðrir hlutar flotans. En það virðist sem einungis hluti skýrslunnar sé í upphaldi hjá þeim hv. þm. sem hér hafa talað. Þeir hafa ekki vitnað til þess sem stendur í skýrslunni og sem skiptir kannski enn þá meira máli þegar horft er á heildina og viðgang efnahagslífs þjóðarinnar að svo segir, með leyfi forseta:

,,Svo virðist sem það markmið laganna að vernda fiskstofnana hafi náðst og ekki þurfi að velkjast í vafa um miklar framfarir í hagkvæmri nýtingu þeirra.`` (Gripið fram í: Þetta eru öfugmæli.)