Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 14:32:52 (6410)

2001-04-05 14:32:52# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. undraðist hversu víðfeðm verðtryggingin er og á hversu mörgum sviðum miðað við önnur lönd. Það er ekkert undarlegt, herra forseti. Það er vegna þess að fá lönd í heiminum hafa farið eins skelfilega illa með sparifjáreigendur sína og Íslendingar gerðu á árabilinu frá 1950--1980. Þar var eignaupptaka og eignatilfærsla frá sparifjáreigendum til skuldara í þvílíkum mæli að ég hygg að annað eins hafi aldrei gerst hvorki fyrr né síðar. Til þess að ráða bót á því þegar allur innlendur sparnaður var hruninn um 1977 urðu menn að taka upp verðtryggingu til þess að byggja upp nýtt traust. Þess vegna er verðtryggingin á svona mörgum sviðum á Íslandi enn þá, þ.e. vegna þess að þetta traust er ekki komið enn þá, ekki að fullu.

Þá sagði hv. þm. að menn þurfi líka að líta á þá sem taka lán, ekki bara á þá sem spara. Að sjálfsögðu. Það er bara ekkert jafnvægi þarna á milli. Miklu fleiri eru tilbúnir til að taka lán en þeir sem eru tilbúnir til að spara. Það er vandamál þjóðarinnar sem kristallast í gífurlegri aukningu á erlendum skuldum, þ.e. að þjóðin er bara ekki tilbúin til að spara. Hún er tilbúin til að skulda. Það er vandamál sem mér fannst hv. þingmenn sem hér ræddu í morgun ekki koma inn á. Við eigum að reyna að hvetja þjóðina til sparnaðar með öllum ráðum og við megum gjarnan hafa dálítið almannatryggingakerfi fjármagnseigenda, eins og það er kallað og ég vildi kalla almannatryggingakerfi þeirra sem eru tilbúnir til þess að leggja krónu í banka, fresta neyslu sinni um einhver ár. Mér finnst bara allt í lagi til þess að hvetja þá til þess að spara með því að þeir fái þá einhverjar tryggingar.