Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 14:35:07 (6411)

2001-04-05 14:35:07# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að allir hv. þingmenn hér inni viti mætavel hvers vegna verðtryggingin var tekin upp. Það var einmitt vegna þess að menn réðu ekki við verðbólguna. Ef ég man það rétt voru vaxataákvarðanir með allt öðrum hætti en þær eru í dag. Vaxtaákvarðanir voru teknar af opinberum aðilum og slíkar vaxtaákvarðanir voru þannig úr garði gerðar að þær héldu ekki í við verðþróun. Þess vegna eyddist spariféð upp og þeir sem skulduðu högnuðust vegna neikvæðra vaxta.

Þessu var velt hér upp í umræðunni af því að menn þekkja þessa sögu. Menn vita af hverju þetta er komið til. Þess vegna var því velt upp hvort efnahagslífið, þ.e. hvort fjármálakerfinu hefði verið breytt nægilega til að menn gætu farið að ræða í alvöru að endurskoða það almannatryggingakerfi fjármagnseigenda, sem svo hefur verið kallað í umræðunni. Þessari hugmynd hefur verið velt hérna inn í umræðuna. Reyndar hefur það oft verið gert. Jafnvel hafa menn gengið svo langt að vilja afnema hana í einu lagi. En ég held að menn þurfi að fara gætilega í það. Ég er sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal hvað það varðar að ég held að menn þurfi að öðlast meiri trú á efnahagskerfið áður en að því kemur.

En aðstaðan þá, þegar þetta var tekið upp, var allt önnur en hún er nú. Vaxtaákvarðanir þá voru allt aðrar en teknar eru nú. Ég er alveg sannfærður um það, ef við tökum bara það umhverfi sem hér hefur verið undanfarin tíu ár með verðbólgu á bilinu 1 til 6--7% þegar verst lét, að þeir sem eru að lána fé hverju sinni séu þess umkomnir að taka vaxta\-ákvarðanir þannig að lánsfé sé ekki með neikvæðum vöxtum eins og var á þessum tíma. Það er ég alveg sannfærður um. Mér finnst því ekki rétt að bera fram þau rök fyrir þessu, þ.e. að á sínum tíma hafi verið neikvæðir vextir og það leiði til þess óhjákvæmlega að ekki sé hægt að breyta neinu nú.