Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 14:37:20 (6412)

2001-04-05 14:37:20# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[14:37]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Við erum ekkert að tala um að efnahags\-ástandið sé orðið gott eða eitthvað því um líkt. Það er vissulega orðið miklu betra og allir sem fylgjast vel með hafa traust á því eða vel flestir.

Það sem við erum að tala um er fjöldi manna og kvenna sem var hlunnfarinn í áratugi með neikvæðum vöxtum. Með opinberum tilskipunum ofan frá, með ákvörðunum Seðlabankans var fólkið hlunnfarið. Það fékk ekki til baka sparnað sinn. Þetta situr í þjóðarsálinni nákvæmlega eins og það situr í skuldurunum. Af reynslu fengu þeir að vita að það borgaði sig að skulda. Í áratugi borgaði sig að skulda á Íslandi. Sú furðulega staða kom upp að það sem áður var dyggð, sparnaður, varð löstur í þessu kerfi. Það er þetta kerfi sem við erum að vinda ofan af, sem hefur gengið reyndar mjög vel að vinda ofan af með hjálp verðtryggingarinnar. Og ef þetta fólk þarf verðtrygginuna sem hjálp til að hafa traust þá má hún gjarnan vera. En eins og ég gat um í ræðu minni í morgun þá er sífellt minni þörf á verðtryggingunni.