Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 15:20:33 (6421)

2001-04-05 15:20:33# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna orðaskipta sem áttu sér stað áðan milli hæstv. utanrrh. og hv. þm. Ögmundar Jónassonar þá vil ég taka það fram að gefnu tilefni að í því frv. um ábyrgðarmenn sem hér kom til umræðu er ekkert bannað. Það er ekki kveðið á um bann við nokkrum sköpuðum hlut, reyndar öðrum en þeim að fjárnám sé gert í heimili ábyrgðarmanna. Það yrði þá strax í upphafi þannig að menn ganga meðvitaðir til þess leiks. Að öðru leyti er ekkert bannað í því frv. frá því sem nú er leyft annað en gerð er rík krafa til upplýsingaskyldu við ákvörðun.

Virðulegi forseti. Ég bar eina spurningu fram við hæstv. utanrrh. og hann svaraði því til að hann taldi að vel gæti komið til álita að skoða það að innborganir gengju inn á höfuðstól og vexti. Ástæðan fyrir því að ég bar upp þá spurningu er sú að mér er tjáð að þetta fyrirkomulag sé í Danmörku. Mér finnst þetta að mörgu leyti skynsamlegt. En hvort það eigi heima í vaxtalögum eða einhvers staðar annars staðar eða séu sjálfstæðar ákvarðanir ríkisstjórna eða sveitarfélaga getur vel verið að megi ræða um. Mér finnst alla vega vel þess virði að skoða þessa hugmynd og ég held að þetta sé eitt af því sem gæti komið þeim allra verst settu til góða.

En meginástæðan fyrir því að ég bað um að veita andsvar við ræðu hæstv. ráðherra er einmitt það sem hann kom inn á hér áðan um að verðtryggð lán tryggðu lægri vexti. Ég óttast mjög að einmitt tilvist verðtryggingarinnar sé þannig að menn líti á hana sem núllpunktinn, að það sé lægsti hugsanlegi vaxtakostnaður, í stað þess að horfa á raunávöxtunina. Við erum að horfa á raunávöxtun í dag á verðtryggðum lánum upp á um 12--13%. Ég er dálítið smeykur um að þetta gangi í gegn gagnrýnislaust vegna þess að menn horfi á hin verðtryggðu lán sem einhvers konar núllpunkt.

Ég tek undir það að verðtryggð lán eiga að tryggja og munu tryggja lægri vexti. En ég held líka að það rugli aðeins verðskyn manna. Mér finnst sjálfum 13% raunávöxtun vera algjörlega fráleit þegar um verðtryggð lán er að ræða.