Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 15:24:01 (6423)

2001-04-05 15:24:01# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talaði um það áðan að ein ástæðan fyrir því að verðtryggingarákvæðin kæmu hér fram væri m.a. vegna bölmóðs stjórnarandstöðunnar og að forsenda fyrir því að svona frv. er lagt fram eða greinar í því sé vegna þess að stjórnarandstaðan er með mikinn bölmóð. Mér finnst þetta nú ekki eiga að vega þungt í þessari umræðu.

Annað langar mig til að segja og það er að hér eru allir sammála að þeir sem lána fé sitt eða fá að láni, eigi að greiða til baka sem menn fá og að menn eigi að fá réttlátt fyrir sitt. En það sem ég hef verið að segja í þessari umræðu er að verðtrygging fjárins eigi ekki að vera algjörlega úr takti t.d. við laun og tekjur fólksins. Þess verður að gæta þegar bankar í eigu ríkisins lána fé að féð sé ekki svo verðtryggt eða ákvæði um verðtryggingu séu það mikil að það sligi fólkið og setji það jafnvel á kaldan klaka.