Móttaka flóttamannahópa

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 15:37:42 (6430)

2001-04-05 15:37:42# 126. lþ. 107.13 fundur 588. mál: #A móttaka flóttamannahópa# frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um móttöku flóttamannahópa og aðstoð við þá.

Frv. þetta var samið í félagsmálaráðuneytinu í þeim tilgangi að festa í sessi það fyrirkomulag á móttöku flóttamannahópa sem tíðkast hefur. Það er komin nokkur reynsla af móttöku slíkra hópa á þeim tíma sem liðinn er frá fyrstu skipun Flóttamannaráðs Íslands árið 1995 en íslensk stjórnvöld hafa tekið á móti flóttamannahópum á hverju ári frá árinu 1996. Kom sú reynsla sér vel er íslensk stjórnvöld ákváðu með skömmum fyrirvara að taka á móti allt að 100 manna hópi flóttamanna vorið 1999 er stríðsástand ríkti í Kosovo. Sú móttaka þótti takast mjög vel og skipti þar ekki síst máli góð og lipur samvinna Flóttamannaráðs og Rauða kross Íslands. Má segja að móttöku flóttamannahópa hafi verið mótaður farvegur sem hefur reynst farsæll og vakið mikla athygli erlendis, ekki síst hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).

Samningur um stöðu flóttamanna var undirritaður í Genf árið 1951 og gerðist Ísland aðili að samningnum 30. nóv. 1955. Gekk samningurinn í gildi að því er Ísland varðar þann 1. mars 1956. Með fullgildingu samningsins gekkst Ísland undir skuldbindingar að þjóðarétti til að taka þátt í samvinnu þjóða á milli um að veita flóttamönnum vernd. Felst sú vernd m.a. í því að tryggja að flóttamenn sem koma hingað til lands njóti sömu mannréttinda og aðrir þegnar ríkisins. Kveður samningurinn á um ýmis réttindi sem aðildarríki skulu sjá til að flóttamenn njóti á landsvæði þeirra en í upphafi samningsins er flóttamannahugtakið skilgreint. Jafnframt skuldbindur samningurinn íslenska ríkið til að hafa samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í málum er snerta flóttamenn. Þess vegna hafa íslensk stjórnvöld haft það að markmiði að taka árlega á móti flóttamannahópum í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld hafa átt mjög gott samstarf við stofnunina. Hún hefur meðal annars gefið Flóttamannaráði Íslands leiðbeiningar um hvar neyðin sé mest og sent forvalslista yfir einstaklinga og fjölskyldur sem þurft hafa á aðstoð að halda. Hafa stjórnvöld tryggt flóttamannahópunum sérstaka aðstoð fyrsta dvalarárið í ljósi þess að flestir einstaklinganna í hópunum hafa dvalið í flóttamannabúðum til lengri eða skemmri tíma.

Vegna þessara alþjóðlegu skuldbindinga íslenska ríkisins þykir eðlilegra að Flóttamannaráð Íslands verði skipað lögum samkvæmt en áður hefur það einungis starfað á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar. Jafnframt er lagt til að meginatriði í skipulagningu á móttöku flóttamannahópa verði lögfest en að nánari útfærslu verði gerð skil með reglugerð á grundvelli laganna, verði frumvarpið að lögum. Ástæðan er sú að framkvæmd verkefnisins er í stöðugri þróun og þykir því ekki rétt að binda hana í lög. Engu að síður er mikilvægt að mælt sé fyrir um fyrirkomulag móttökunnar í lögum og reglugerð enda hefur verið farið þess á leit við Flóttamannaráð að verkefnið verði fyrirmynd að móttöku flóttamannahópa í öðrum ríkjum.

Í frumvarpinu er lagt til að hlutverk Rauða kross Íslands í undirbúningi og framkvæmd móttökunnar verði lögfest. Rauði krossinn hefur átt stóran þátt í að móta þá framkvæmd sem viðhöfð hefur verið og þykir því mikilvægt að það samstarf verði áfram tryggt.

Flóttamannaráð semur við tiltekið sveitarfélag eða sveitarfélög um móttöku á ákveðnum fjölda flóttamanna hverju sinni. Samningar við sveitarfélögin taka til þjónustu sem ætla má að einstaklingar úr flóttamannahópnum þarfnist svo sem heilbrigðisþjónustu, húsnæðisöflun, vinnumiðlun, leikskólakennslu, grunnskólakennslu, framhaldsskólakennslu, félagsráðgjöf og fjárhagsaðstoð. Sveitarfélag gerir kostnaðaráætlun vegna móttöku flóttamannahóps í samráði við Flóttamannaráð Íslands. Kostnaður við flóttamannamóttöku greiðist að sjálfsögðu úr ríkissjóði.

Herra forseti. Ég geri það að tillögu minni að þetta frv. verði að lokinni 1. umr. í dag sent hv. félmn. til athugunar.