Móttaka flóttamannahópa

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 15:47:22 (6434)

2001-04-05 15:47:22# 126. lþ. 107.13 fundur 588. mál: #A móttaka flóttamannahópa# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að ég hef komið í flóttamannabúðir í Serbíu. Fólkið þar býr er ekki við neina sældarvist. Það er hins vegar rétt að þetta er mennilegt og ágætt fólk og þeir sem hingað hafa komið hafa reynst vel. Það er ekki undantekningarlaust að það sé læst. Ég þekki a.m.k. eitt dæmi um fullorðinn einstakling frá Kosovo sem var ólæs.

Það er alls ekki verið að gera sveitarfélögunum góðverk með því að senda þeim flóttamenn. Hins vegar hefur tekist afskaplega vel til hjá þeim sveitarfélögum sem tekið hafa á móti fólkinu. Þau hafa látið sér annt um það og móttakan tekist mjög vel. Heimamenn hafa lagt sig fram um að gera gestunum dvölina sem ánægjulegasta. Það hefur verið séð um fólkið í eitt ár, því kennd íslenska og börnunum reyndar einnig móðurmál þeirra. Eftir árið eiga þeir að sjá um sig sjálfir með eðlilegri félagsþjónustu í sínu dvalarsveitarfélagi.

Það er alls ekki einhlítt að of mikið hafi verið um húsnæði í sveitarfélögunum. Það gefur augaleið að það er ekki hægt að taka á móti fólki nema þar sé eitthvert húsnæði til reiðu. Það væri dýrt að leigja yfir þetta fólk á Reykjavíkursvæðinu, að taka íbúðir á leigu handa því hér. Á Hornafirði voru t.d. húsnæðisvandræði eða þröngt um húsnæði. Við höfum einnig verið í viðræðum um að tekið verði við flóttafólki á Sauðárkróki en þar er einnig skortur á húsnæði.