Móttaka flóttamannahópa

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 16:10:58 (6441)

2001-04-05 16:10:58# 126. lþ. 107.13 fundur 588. mál: #A móttaka flóttamannahópa# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[16:10]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek svo sannarlega undir að það er mjög mikilvægt að geta veitt flóttamönnum atvinnu og húsnæði o.s.frv. En ég var bara að velta því upp hvort e.t.v. væri ástæða til þess að menn hefðu það ekki svona eindregið í lagatexta eins og í 6. gr. frv. að alltaf skuli auglýsa eftir sveitarfélögum. Það gæti líka verið á hinn veginn, að það væri óskað eftir því við ákveðin sveitarfélög að taka á móti ákveðnum hópi í ljósi þarfa hópsins o.s.frv. Það er ástæðan fyrir athugasemd minni.

Ég er alls ekki að gera lítið úr því að ekki hafi verið tekið vel á móti fólki hér. Vissulega hefur það verið og mun sjálfsagt verða áfram þegar búið er líka að setja svona lög. En það eru auðvitað nokkur atriði, herra forseti, sem við þurfum aðeins að velta fyrir okkur við þessa lagasetningu og við umfjöllun þessa frv. Þegar frumvarpstexti kemur inn í þingið þá sér maður hann kannski oft á margvíslegan hátt. Ég hef a.m.k. nefnt nokkur atriði og geri ekki lítið úr því að fólk hafi atvinnu. Það getur auðvitað haft atvinnu líka í sveitarfélagi þó viðkomandi stjórnvöld óski sérstaklega eftir því að það sveitarfélag taki við þessum hópi. Þetta gæti verið fólk sem hefur reynslu af fiskveiðum eða ákveðnum atvinnugreinum sem eru sérstaklega stundaðar í ákveðnum bæjarfélögum og þá sé farið fram á það í staðinn fyrir að setja það í alls ólíkt umhverfi aðeins vegna þess að viðkomandi sveitarfélag svarar auglýsingu um að það vilji taka á móti hópnum. Þetta eru bara svona vangaveltur í þessu ljósi.